Með vísan til laga um búfjárhald nr. 46/1991 með áorðnum breytingum.
Tilgangur samþykktar þessarar er að tryggja sem best skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Súðavíkurhreppi, að koma í veg fyrir ágang búfjár á gróður í hreppnum og á lóðir hreppsbúa, að gæta þess að hús fyrir búpening og önnur aðstaða sé þrifaleg og í samræmi við vilja hreppsnefndar, svo og að marka búfjárhaldi að öðru leyti reglur, þannig að það geti verið í sátt við allra er búa í hreppunum.
Búfjárhald er heimilt í Súðavíkurhreppi á bújörðum í hreppnum, nema innan svæðis sem afmarkast af girðingu umhverfis þéttbýli Súðavíkur. Þeir sem búfjárhald stunda skulu fara að lögum og reglum er um það gilda hverju sinni, svo sem lögum um búfjárhald og forðagæslu 46/1991 með síðari breytingum, og öðrum lögum og reglugerðum.
Allt búfjárhald og lausaganga búfjár án leyfis er bönnuð á svæðinu sem afmarkast af girðingu hreppsins frá þjóðvegi utan við Sjónarhól, upp í Sauradal og að ristarhliði innan við Langeyri. Sveitarstjóra er hvenær sem er heimilt að takmarka rekstur á búfé um þéttbýli í hreppnum.
Hver sem vill fá leyfi til búfjárhalds innan girðingar umhverfis þéttbýli Súðavíkur sbr. 3. gr. skal senda um það umsókn til hreppsnefndar ásamt yfirlýsingu um að hann beri að öllu leyti ábyrgð á því tjóni sem gripir hans kunna að valda. Búfjárhöldurum er skylt að tryggja búfé frjálsri ábyrgðartryggingu gagnvart tjóni þriðja aðila.
Hreppsnefnd skal veita leyfi til búfjárhalds sbr. 4. gr. hverjum þeim sem ekki hefur gerst brotlegur við lög og reglur um meðferð búfjár og hefur fullnægjandi aðstöðu fyrir búfé að því er varðar landrými, húsakost, fóður að aðra meðferð. Leyfi til búfjárhalds skal gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Hreppsnefnd getur veitt leyfi til búfjárhalds til ákveðins tíma eða ákveðið tiltekinn frest til afturköllunnar þess. Ef leyfishafi brýtur reglur um meðferð búfjár, t.d. gætir þess ekki á fullnægjandi hátt, skal afturkalla leyfið að undangenginni aðvörun.
Öll gripahús skulu byggð úr þannig efni að auðvelt sé að halda þeim snyrtilegum og að búfénu líði vel í þeim. Húsum skal haldið vel við og haldið snyrtilegum. Öll óhreinindi og úrgangur (tað o.þ.h.) er fylgja búfjárhaldinu skulu fjarlægð og er með öllu bannað að safna neinu slíku utan húss.
Ef maður heldur búfé án heimildar, sem reglugerð þessi mælir fyrir um, skal lögreglustjóri að beiðni hreppsnefndar hlutast til um að búfé sé tekið úr vörslu hans og er heimilt að selja það á uppboði eða slátra því að undangenginni aðvörun. Sama gildir ef leyfishafi gætir ekki settra reglna um meðferð búfjárins þannig að það valdi tjóni eða óþrifum. Allan kostnað sem leiða kann af framangreindu, skal lögreglustjóri innheimta hjá eiganda búfjárins.
Hreppsnefnd skal sjá um að búfjárheld girðing sé umhverfis þéttbýli í hreppnum. Girðing hreppsins umhverfis þéttbýlið skal verði orðin fjárheld, ef snjóalög hamla ekki, jafn fljótt og mögulegt er að vori og verði það þar til sjóar hamla því að hausti. Hreppsnefnd skal skipuleggja landssvæði fyrir búfjárhald í þéttbýli. Í skipulagi nýju byggðarinnar er gert ráð fyrir því á Eyrardalstorfunni. Á Eyrardalstorfu skulu þeir sem eru með búfé girða lóðir sínar með þeim girðingum sem við eiga til að tryggja að búfé gangi ekki laust á torfunni.
Þeir aðilar sem nú eru með búfjárhald í gömlu byggðinni utan Eyrardalsár eiga rétt á að hafa það þar áfram en um það gilda ákvæði þessarar samþykktar.
Þeir sem leyfi fá leyfi til búfjárhalds skv. samþykkt þessari skulu koma upp girðingum og gerðum til að tryggja aðhald við búfé áður en leyfið verður staðfest.
Brot gegn reglugerð þessari varða sektum. Með mál út af brotum skal fara að hætti opinberra mála.
Samþykkt þessi, sem saminn er og samþykkt af hreppsnefnd Súðavíkurhrepps staðfestist hér með samkvæmt lögum um búfjárhald, forðagæslu o.fl. nr. 46. 25. mars 1991 til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.
Með samþykkt þessari fellur fyrri reglugerð Súðavíkurhrepps nr. 370/1990 um búfjárhald úr gildi.
Samþykkt þessi var samþykkt á fundi hreppsnefndar Súðavíkurhrepps þann 27. apríl 1999.
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.