Samningur við Ungmennafélagið Geisla vegna leigu á íþróttasal

LEIGUSAMNINGUR

 

Undirritaðir aðilar, Súðavíkurhreppur kt: 630269-4589, í samningi þessum nefndur leigusali og Ungmennafélagið Geisli, kt. 440581-0219, í samningi þessum nefndur leigutaki gera með sér svofelldan

 

leigusamning

•1.   gr. Hið leigða

Leigusali leigir leigutaka samkvæmt samningi þessum íþróttahús Súðavíkurskóla til íþróttaiðkunar. 


•2.  
gr. Leiguupphæð

Leigufjárhæð skal vera kr. 10.000 fyrir hvern mánuð sem innheimt er fyrirfram í einni greiðslu í upphafi hvers árs.  Fjöldi leigumánaða innan hvers árs eru níu mánuðir sjá gr. 3. Leigufjárhæð skal vera bundin vísitölu neysluverðs og miðast við 1. janúar 2011.


•3.  
gr. Gildistími leigusamnings

Leigusamningur tekur gildi þann 1. janúar 2011 og er ótímabundinn. Innan hvers árs hefur leigutaki afnot af húsnæðinu frá 1. september til 31. maí ár hvert.  Gagnkvæmur uppsagnarfrestur eru þrír mánuðir og skal uppsögn vera skrifleg og miðast við mánaðarmót.


•4.  
gr. Reglur sem gilda um hið leigða húsnæði

  • a) Leigutaki leigir íþróttasal Súðavíkurskóla þann tíma sem Súðavíkurskóli og/eða Súðavíkurhreppur notar húsnæðið ekki sem er að öllu jöfnu virka daga frá kl. 16.00 til kl. 23:00 og einnig um helgar frá kl. 08:00 til 23:00. Umsjónarmaður húsnæðis f.h. leigusala er húsvörður Súðavíkurskóla.

 

  • b) Leigusala er óheimilt að leigja hið leigða til þriðja aðila.

 

  • c) Leigutaki skal ávallt skipa ábyrgðarmann fyrir hverjum þeim tíma sem nýttur er í íþróttahúsinu og skulu þeir aðilar vera orðnir lögráða og með óflekkað mannorð. Upplýsingar um þá aðila skulu vera sýnilegar á töflu í íþróttahúsinu.

 

  • d) Ábyrgðarmaður skal tryggja að þeir sem nota salinn sýni tilhlýðilega háttsemi og fari að húsreglum. Ábyrgðarmaður leigutaka skal sjá um að í lok leigðs tíma sé íþróttasal og búningsherbergjum skilað í því ástandi sem það var í við viðtöku. Ábyrgðarmaður skal mæta í upphafi hvers tíma og vera til staðar í húsinu þann tíma sem íþróttasalur er í notkun. Ábyrgðarmaður sér m.a. um að ganga frá húsinu í lok dags og læsa.

 

  • e) Reykingar og notkun áfengis eru bönnuð í skólahúsnæðinu.

•5.   gr. Umgengni

Leigutaki hefur kynnt sér ástand hins leigða húsnæðis og sættir sig við það í alla staði. Leigutaki lofar að ganga vel um hið leigða húsnæði og að leigutíma loknum skila húsnæðinu í sama ástandi, enda sé þá tekið tillit til slits sem verður við eðlilega notkun.  


•6.  
gr. Vanefndir

Standi leigutaki ekki í skilum með leigugreiðslur á réttum gjalddaga, fari illa með hið leigða eða brjóti leigusamning þennan í öðrum verulegum atriðum, hefur hann fyrirgert leigurétti sínum og skal þá skylt að rýma húsnæðið eftir kröfu leigusala.  Verði tjón á hinu leigða á leigutíma sem rekja má til útleigu til leigutaka skal leigutaki bæta það tjón að fullu gagnvart leigusala.  


•7.  
gr. Annað

Af leigusamningi þessum eru gerð tvö samhljóða eintök, sitt handa hvorum aðila.

Til staðfestu samningi þessum rita leigusali og leigutaki nöfn sín hér undir í viðurvist vitundarvotta.

 

                                                                    Súðavík, 2. mars 2011

Sign:
 

Leigusali:                                                                                               Leigutaki:

 F.h. Súðavíkurhrepps                                                                           F.h. Ungmennafélagsins Geisla

Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri                                                         Laufey Þóra Friðriksdóttir, formaður Geisla