Kirkjur í Súðavíkurhreppi

Súðavíkurkirkja

Súðavíkurkirkja
Kirkjan var reist árið 1899 og vígð 3. september sama ár á Hesteyri við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum. Norskur hvalfangari Markús Bull flutti efnið í kirkjuna frá Noregi með hvalveiðiskipi.

Kirkjan var tekin niður árið 1960 og flutt til Súðavíkur og reist þar sem hún stendur nú. Hún var tekin í notkun og vígð 1963. Byggt var við kirkjuna haustið 1992 og viðbótin vígð 4 apríl 1993.

 Kirkjugarður var gerður í Súðavík árið 1943 og var fyrst jarðað í honum árið 1944. Þar áður var jarðsett á Eyri við Seyðisfjörð og voru kistur fluttar með bátum yfir fjörðinn, fyrir Kambsnesið og inn að Eyri.

Frá árinu 1944 til ársins 1963 var Samkomuhús Súðavíkur notað við kirkjuathafnir en síðan gamli barnaskólinn sem byggður var á Eyrardalstúninu og stendur enn við nýja barna-og leikskólann.

 Ekki voru allir jafn sáttir við flutning kirkjunnar frá Hesteyri til Súðavíkur og fóru þær sögur af stað að Súðvíkingar hefðu stolið kirkjunni. En hið sanna er, að þegar Súðvíkingar báðu biskup um leyfi til að byggja kirkju í Súðavík, þá taldi biskup það vera hentugra og ódýrara að flytja kirkjuna frá Hesteyri þar sem byggð þar væri komin í eyði og gaf biskup Eyrarsókn kirkjuna og leyfi til að flytja hana til Súðavíkur.

 Engir kirkjugripir fylgdu kirkjunni nema önnur af tveimur kirkjuklukkum sem er með ártalið 1899. Talið er að Sóknarnefnd Hesteyrar hafi tekið kirkjugripina í sína vörslu.

 

Eyrarkirkja í Seyðisfirði

Eyrakirkja 1

Guðmundur Bárðarson bóndi á Eyri lét byggja núverandi kirkju árið 1866. Eyrarkirkja er bændakirkja og er í einkaeigu. Síðasti ábúandi á Eyri lést árið 2000.

Í kirkjugólfi er hleri sem hægt er að opna. Þar undir er legsteinn og er hægt að lesa á steininn, en ártalið á steininum er frá því 1600.

 

Ögurkirkja

Í Ögri hefur í gegnum aldirnar verið höfuðból og höfðingjasetur. Ögurkirkja er stórt og vandað timburhús, reist 1859. Á hún margt góðra muna og eru flestir komnir á Þjóðminjasafn Íslands. Altaristaflan er eftir Anker Lund, máluð 1889. Kaleikur með ártalinu 1854 og fágætir ljósahjálmar eru í kirkjunni.

 

Vatnsfjarðarkirkja

Vatnsfjörður er fornt og sögufrægt höfuðból innst á Vatnsfjarðanesi og er prestsetur og kirkjustaður. Kirkjan sem nú stendur var byggð af steini á árunum 1911 - 1912. Hún tekur um 60 manns í sæti. Vatnsfjarðarkirkja á enn marga fágæta gripi en nokkrir eru komnir til Þjóðminjasafnsins.

Merkasti gripurinn í kirkjunni er róðukross allstór er hangir á kórgafli vinstra megin við altari, gerður af Guðmundi Pálssyni bíldhöggvara (d. 1888). Altaristaflan er danskt málverk með ártalinu 1860. Í kirkjunni er skírnarfontur, skál úr silfri eftir Guðjón Bernharðsson gullsmið og gamall og merkur ljósahjálmur.