Um skipulagskerfið Skipulag er formleg, bindandi áætlun sveitarstjórnar um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis. Í skipulagi er ákveðið hvernig landi skuli ráðstafað, til dæmis fyrir íbúðarbyggð, frístundabyggð, verslun, náttúruvernd eða landbúnað. Þar eru líka teknar ákvarðanir um fyrirkomulag gatna og lóða og settar reglur um hönnun einstakra bygginga, svo sem um hæðafjölda, byggingarefni, þakform og fjölda íbúða. Skipulag á að tryggja að land sé nýtt á hagkvæman hátt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi sveitarstjórna þurfa að byggja á skipulagi og vera í samræmi við það.
Aðalskipulag Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Aðalskipulag skal ná til að a.m.k. 12 ára en að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum metur sveitarstjórn hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulag. Stefna sem sett er fram í aðalskipulagi er útfærð nánar í deiliskipulagi fyrir einstök svæði. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Lýst er forsendum stefnu og skipulagsákvarðana og eftir atvikum hvernig staðið verður að framkvæmd þeirra. Aðalskipulag á að vera virkt stjórntæki sem nýtist beint við ákvarðanatöku og við gerð annarra áætlana sem snerta ráðstöfun lands á einn eða annan hátt. Aðalskipulag stýrir því hvar og hvernig við búum og störfum og á þann hátt myndar það umgjörð fyrir daglegt líf. Jafnframt sýtir það hvernig okkur miðar í átt að sjálfbærri nýtingu lands og sveigjanlegu og öruggu umhverfi fyrir íbúa og atvinnulíf. Aðalskipulag er venjulega sett fram í tveimur hlutum, þeir eru
Ferli aðalskipulagsgerðar Lýsing aðalskipulagsverkefnis Í upphafi vinnu að aðalskipulagi tekur skipulagsnefnd sveitarfélagsins saman lýsingu fyrir aðalskipulagsverkefnið þar sem gerð er grein fyrir tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni. Lýsingin er samþykkt í sveitarstjórn. Lýsingin er kynnt opinberlega og almenningur fær tækifæri til að koma ábendingum á framfæri við sveitarfélagið. Samtímis er leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila.
Tillaga að aðalskipulagi Skipulagsnefnd vinnur tillögu að aðalskipulagi í samræmi við lýsingu skipulagsverkefnisins og með hliðsjón af þeim ábendingum sem borist hafa frá almenningi og umsagnaraðilum á fyrri stigum. Við gerð aðalskipulags eru umhverfisáhrif metin og niðurstöður umhverfismatsins nýttar við endanlega mótun skipulagstillögunnar. Aðalskipulagstillaga skal unnin í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Þegar endanleg tillaga að aðalskipulagi liggur fyrir af hálfu sveitarstjórnar er hún er send Skipulagsstofnun til umsagnar. Skipulagstillagan er síðan formlega auglýst til kynningar og almenningi gefinn kostur á að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn.
Staðfest aðalskipulag Þegar frestur til athugasemda er liðinn tekur skipulagsnefnd afstöðu til athugasemda og umsagna og gengur frá endanlegu aðalskipulagi til lokasamþykktar í sveitarstjórn. Þá er samþykkt skipulag sent til Skipulagsstofnunar til staðfestingar. Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn og staðfest af Skipulagsstofnun.
Umhverfismat og umhverfisþættir Umhverfismat áætlana felst í að meta áhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið og nýta niðurstöður matsins til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þeirra. Umhverfismat áætlana er hugsað sem undanfari mats á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda. Þegar metin eru umhverfisáhrif áætlunar, eins og til dæmis svæðis- eða aðalskipulags, gefst tækifæri til að leggja mat á víðtækari umhverfisáhrif þeirrar stefnu sem þar er sett fram og leggja mat á mismunandi valkosti, til dæmis um mismunandi staðsetningar- og legukosti. Við mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda er síðan lagt ítarlegra mat á umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar og nánari útfærslu hennar.
Samráð og kynning Skipulagslög eiga að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana. Samkvæmt lögunum ber að kynna skipulagslýsingu og matslýsingu og kynna skipulagstillögu á vinnslustigi. Þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa skipulagstillögu geta almenningur og hagsmunaaðilar gert athugasemdir við hana. Nánari upplýsingar um aðalskipulag og gerð þess er m.a. að finna á vef Skipulagsstofnunar (Heimild: Skipulagsstofnun) |
Aðrar upplýsingarHvað er aðalskipulag? Samvinna - skipulagshópur Staðan Útgefið efni og afurðir Ýmis gögn Tilkynningar Senda ábendingu |
|
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.