Við Aðalgötu í eldri hluta Súðavíkur stendur forláta símklefi. Hann er einn af fáum eftir á landinu sem enn virkar. En honum hefur einnig verið gefið annað hlutverk. Þegar vorar sprettur þarna upp lítið skiptibókasafn þar sem gestir og gangandi geta kippt með sér bók út í blíðviðrið eða tekið með sér heim. Óskráðar reglur safnsins eru þær að þú tekur eina bók og skilar svo einni. Bókin sem þú skilar þarf ekki endilega að vera sama bókin og þú tókst með þér til að byrja með, sem gerir safnið einstaklega skemmtilegt og síbreytilegt. Nú og ef valkvíðinn lætur á sér kræla, er alltaf hægt að hringja í vin.