Undanfarið hefur Blámi í samstarfi við Súðavíkurhrepp unnið að tilraunaverkefni við gömlu vatnslögnina sem liggur niður að Langeyri. Verkefnið hófst í haust og hefur ýmislegt verið skoðað og gert til þess að kanna möguleika á að nýta vatnslögnina til þess að knýja hverfil og framleiða rafmagn og hitaorku. Nokkrar endurbætur þurftu að eiga sér stað á vatnsmiðlunarhúsi við Sauradal þar sem inntakið er. Vatnslögnin var í sundur og því hefur þurft að lagfæra hana og hafa undanfarnar vikur farið í að kanna hvort lögnin geti ekki flutt vatn þannig að fallhæðin nýtist í verkefnið.
Í gær, 14. nóvember 2023, um kl. 15:15, fékkst niðurstaðan. Fyrirstaða hafði verið í lögninni, enda hafði inntakið látið á sjá eftir margra ára notkunarleysi. Með tíð og tíma hefur sest til möl og jarðvegur í lögnina og því hafði þrýstingur fallið eftir stuttan tíma þegar skrúfað var frá útrennsli fyrir ofan þjóðveginn ofan við Langeyri. Eftir að hafa kallað út Slökkvilið Súðavíkurhrepps og fengið aðstoð dælubíls við að "hjálpa" rennslinu hreinsaðist lögnin og er rennsli nú stöðugt. Úttakið fyrir ofan veg við Langeyri gefur um 10 bar þrýsting sem er nokkuð heppilegur fyrir verkefnið og eru möguleikar á að auka við það ef úttakið verður fært niður að Langeyri. Á næstu dögum verður svo búnaðurinn settur upp og prófaður næstu vikurnar með fyrirheit um að skapa næga orku. Verkefnið er spennandi kostur og gefur fyrirheit um frekari framtíðarmöguleika á notkun svona búnaðar sem gæti mætt staðbundinni þörf fyrir raforku/hitaorku til kyndingar, en í þessum fasa er stefnt á að nýta afraksturinn í heita potta eða baðlón. Möguleikarnir eru endalausir eftir því sem orkan er meiri.
Þau Tinna Rún Snorradóttir og Þorsteinn Másson voru að vonum verulega ánægð með niðurstöðuna eins og við öll sem stöndum að verkefninu.
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.