Jæja, það er kominn mars og árið er 2021.
Veturinn hefur framan af verið talsvert mildari en sá síðasti. Hér hefur ekki snjóað að heitið getur miðað við lengdar- og breiddargráðu. Súðavíkuhlíðin er opin meira og minna, en ekki tölfræði eins og á liðnum vetri þar sem fyrstu þrjá mánuði ársins 2020 var búið að loka henni um 40 sinnum. Það þýðir að lífið gengur sinn vanagang að mestu.
Ófögnuðurinn Covid-19 er í rénun og hefur ekki sömu áhrif á líf okkar hér eins og á liðnum vetri og allt stefnir í það að samfélagið allt muni ná vopnum sínum og samkomur geti orðið raunin þegar líður á árið. Við ættum að geta horft örlítið bjartsýnni á sumarið eða í það minnsta seinni hluta þess.
Breytingar hafa orðið á sveitarstjórn, en við höfum horft á eftir fólki úr Súðavíkurhreppi frá því vorið 2020. Elín Birna flutti með fjölskyldu sinni norður í land, Örn Elías ásamt sinni fjölskyldu yfir stálþilið á Ísafjörð og Steinn Ingi vestur á Akranes. Við þökkum þeim góð störf og óskum þeim velgengni á nýjum vettvangi. Guðmundur Birgir flutti til baka og tók sæti í sveitarstjórn. Hefur annar listinn tekið miklum breytingum og felast í því nýjar áskoranir. Samstarf gengur vel og sinn vanagang.
Við bíðum enn eftir því að klárað verði að dýpka Súðavíkurhöfn, en verktaki mætti með langarma gröfu og tók það sem næst var viðlegukantinum norðanmegin í höfninni. Mælingar fara fram í dag áður en pramminn Pétur mikli kemur til þess að ljúka verkinu. Vegagerðin fullyrðir að það megi eiga sér stað í mars á þessu ári.
En við horfum meira til þess sem ætti að fara í gang innan Langeyrar í útbúnaði verksmiðjulóðar og hafnarmannvirkja. Þar tókum við forskot á sæluna með því að fá dæluskip Björgunar – Dísu til þess að blása upp því sem hún náði í Súðavíkurhöfn í kverkina á Langeyri sunnanmegin. Og jafnframt því sem náðist upp úr höfninn með gröfunni frá hafnarbakkanum. Verkefnið um vinnslu kalkþörunga úr Ísafjarðardjúpi þokast hænufet áfram með hverjum mánuðinum, en það mætti alveg fara að raungerast meira. Eftir lítil tíðindi átti sveitarstjóri og oddviti sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps fund með ráðherra – Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og ráðuneytisstjóra. Vonandi skilar sá fundur okkur lengra í verkefninu og setur pressu á stofnanir sem í hlut eiga.
Fyrirsjáanlega verður ferðasumarið meira innlent líkt og á liðnu sumri 2020. Súðavíkurhreppur ætlar að eiga hlutdeild í því og bjóða landann velkominn og þá erlendu ferðamenn sem eiga heimangengt. Er ætlunin að hafa opið fyrir heimsóknir með einum eða öðrum hætti í Eyrardalshúsinu, hvort sem það er undir formerkjum Melrakkaseturs eða annars reksturs. Raggagarður verður með starfsmanni og tjaldsvæðið eflt og bætt og stefnt að því að þorpið skarti sínu fegursta. Þá verður ferðaþjónustunni í Súðavíkurhreppi gert kleyft að auglýsa með sambærilegum hætti og síðastliðið sumar.
Við ætlum að reyna að efla hér atvinnu með ýmsum ráðum og auglýsa okkar fallega hrepp. Þorpið í Súðavík býður upp á gjaldfrjálsan leikskóla og marga þá kosti sem ættu að vera eftirsóknarverðir fyrir ungt og kraftmikið fólk. Þessu þarf að halda á lofti og stuðla að endurnýjun þeirra sem landið erfa og fylla skóla og leikskóla. En það útheimtir líka eflingu atvinnulífs og þjónustu. Þar þurfum við að leggjast á eitt, við sem hér búum og blása lífi í og boða sókn.
Haldinn var aukafundur sveitarstjórnar þann 1. mars 2021. Ýmislegt var þar rætt sem tekur mið af því að stefnt er að eflingu atvinnulífs í Súðavíkurhreppi. Meðal annars á að skoða með sölu á húsunum á Langeyri og hafa komið upp hugmyndir um að byggja nýtt húsnæði fyrir sveitarfélagið þar. Er þá verið að horfa til þess að koma meira rekstri atvinnufyrirtækja í þau hús sem eru þar en byggja annað hentugt undir starfsemi Súðavíkurhrepps. Heppilegra er að slík hús séu í einkaeigu frekar en að sveitarfélagið eigi þau og reki. Einnig hefur talsverð breyting orðið á fasteignum til útleigu, en Súðavíkurhreppur hefur selt hluta eldra húsnæðis og byggt nýtt í Grundarstræti. Þau verða líklega öll komin í útleigu í mars, en jafnframt er stefnt að frekari sölu íbúða í eigu sveitarfélagsins.
Súðavíkurhreppur áformar að ljúka ljósleiðaravæðingu Súðavíkur í sumar, en málið fór í talsverða bið vegna stjórnsýslulegrar u-beygju sem varð vegna aðkomu Póst- og fjarskiptastofnunar. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá þeim aðilum sem að því standa mun það raungerast á miðju sumri að klára verkið.
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.