Ágætu íbúar Súðavíkurhrepps!
Með breytingum á sveitarstjórnarlögum var lögð sú skylda á sveitarfélög með undir 250 íbúa að hefja sameiningarviðræður við annað eða önnur sveitarfélög eftir síðustu sveitarstjórnarkosnigar í maí 2022. Að öðrum kosti skyldi viðkomandi sveitarfélag vinna álitsgerð um getu sína til þess að sinna lögboðnum og ólögboðnum verkefnum og skila til Innviðaráðuneytis til yfirferðar. Tilvitnuð lagabreyting er 4. gr. a sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem er eftirfarandi:
[4. gr. a. Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags.
Í því skyni að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni skal stefna að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags sé ekki undir 1.000.
Ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 við almennar sveitarstjórnarkosningar skal sveitarstjórn þess, innan árs frá þeim sveitarstjórnarkosningum, leitast við að ná markmiðum skv. 1. mgr. með því að:
a. hefja formlegar sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. eða
b. vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum, sbr. 1. mgr., og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.
Ráðherra setur með auglýsingu 1) leiðbeiningar um þau atriði sem fram þurfa að koma í áliti skv. b-lið 2. mgr. en þar skal m.a. fjallað um fjárhagslega og félagslega þætti sveitarfélagsins, íbúaþróun, þjónustu sveitarfélagsins og aðrar samfélagslegar aðstæður. Ráðherra getur að ósk sveitarstjórnar veitt henni lengri tíma til afgreiðslu álitsins ef ástæða þykir til.
Álit skv. b-lið 2. mgr. skal sent ráðuneytinu til umsagnar og síðan kynnt íbúum sveitarfélagsins með fullnægjandi hætti ásamt umsögn ráðuneytisins. Að því loknu skal sveitarstjórn taka ákvörðun um hvort hefja eigi sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. og hafa um það tvær umræður skv. 1. mgr. 18. gr.
Taki sveitarstjórn ákvörðun um að hefja ekki sameiningarviðræður skv. 4. mgr. geta minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óskað almennrar atkvæðagreiðslu um ákvörðun sveitarstjórnar hafi slík atkvæðagreiðsla ekki þegar farið fram. Sveitarstjórn skal verða við ósk íbúa eigi síðar en innan sex mánaða frá því að hún berst og skal niðurstaða atkvæðagreiðslunnar vera bindandi fyrir sveitarstjórn. Að öðru leyti fer um atkvæðagreiðsluna skv. 107. og 108. gr.] 2)
1) Augl. 777/2022. 2)L. 96/2021, 1. gr.
Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur ekki farið í formlegar viðræður um sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög og skilaði inn álitsgerð til Innviðaráðuneytis sl. sumar. Ráðuneytið sendi út fréttatilkynningu þegar niðurstaða ráðuneytis lá fyrir og má nálgast fréttina á heimasíðu Innviðaráðuneytis.
Til þess að fylgja eftir þeirri umfjöllun og fá umræður um stöðu Súðavíkurhrepps og kanna áhuga á sameiningarkostum eða Súðavíkurhreppi sem sjálfstæðu sveitarfélagi er efnt til kynningarfundar um álitið og umræðna um framtíð sveitarfélagsins. Fundurinn verður haldinn í Súðavíkurskóla sunnudaginn 21. júlí 2024 og verður dagskrá nánar auglýst síðar. Dreifibréf verða send til þess að fylgja eftir auglýsingu um fund og fundartíma ásamt kynningarefni eftir atvikum.
f.h. Súðavíkurhrepps
Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.