Ágætu íbúar í Súðavíkurhreppi.
Þrátt fyrir afar fallegan og kaldan dag verður ekki brenna á gamlársdegi. Það er miður að þurfa að tilkynna það en aðstæður eru með þeim hætti að ekki þykir við hæfi að boða til viðburðar meðan smittölur vegna covid-19 telja milli 800 og 900 einstaklinga á dag. Þrátt fyrir að við höfum í raun sloppið vel hér í Súðavíkurhreppi í farldrinum frá byrjun árs 2020 verður að hafa varúðina sem fararstjóra. Í samráði við Almannavarnir höfum við því ákveðið að sleppa brennunni í kvöld og þrettándinn er líkast til úti líka. Ég vil minnna á að flugeldasýning verður hér í kvöld kl. 20:30 í boði Súðavíkurhrepps og Björgunarsveitarinnar Kofra. Hún verður staðsett í holtinu fyrir ofan miðja Holtagötu þannig að sem flestir eiga að geta séð hana án þess að þurfa að mæta á staðinn.
Árið hefur verið alla vega en þó að mestu áfallalaust hér þrátt fyrir einstaka illviðri og aðallega tjón á lausamunum. Einhver okkar höfum kvatt fólk á árinu og við hæfi að minnast þeirra í dag, þó það beri upp fleiri daga sem slíkar minningar leiti á okkur. Að mörgu leyti var þó árið milt hér en auðvitað hefur faraldur covid-19 sett mark á allt okkar líf og óvíst hvenær eða hvort því líkur í bráð. Það er samt sem áður ástæða til bjartsýni fyrir komandi ár enda útlit fyrir að hér muni áhugaverðir hlutir setja mark sitt á samfélagið. Verður ekki hjá því komist að minnast á að undirritaður var samningur um uppbyggingu og rekstur kalkþörungaverksmiðju á árinu, útboð vegna landfyllingar auglýst af Vegagerðinni og útboð vegna fyrirstöðugarðs verður auglýst þann 3. janúar 2022. Mikil uppbygging verður því hér á komandi ári og árum. Er það von mín að Súðavíkurhreppi muni farnast vel í því samstarfi.
Framkvæmdir verða einkennandi fyrir sveitarfélagið ef allt gengur upp, fjárfesting í tækjum og búnaði sem löngu var þarfur. Ný flotbryggja í Súðavíkurhöfn að vori en auk þess hafa kaup á vel útbúinni slökkvibifreið verið staðfest. Þá hafa Björgunarsveitin Kofri og Slökkvilið Súðavíkurhrepps verið flutt í hentugt húsnæði að Langeyrarvegi 5-7.
Fyrir hönd Súðavíkurhrepps vil ég nota tækifærið og þakka ykkur samfylgdina á árinu sem nú er á enda og óska okkur þess öllum að komandi ár verði milt og gæfuríkt.
Með vinsemd og virðingu,
Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.