Gamla byggðin í Súðavík, einnig nefnd sumarbyggðin.
Á aukafundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps var tekið fyrir erindi frá Félagi Sumarbúa í Súðavík - FSS dags. 1. febrúar 2021. Erindið innihélt ósk um fulltingi Súðavíkurhrepps í því að fá lengdan dvalartíma í húseignum sumarbúa í Súðavík. Svo sem kunnugt er má einungis dvelja í fasteignum í gömlu byggðinni í Súðavík frá 30. apríl ár hvert til 1. nóvember. Segir í erindinu að dvelja megi frá 16. apríl til 15. desember í Tunguskógi á Ísafirði. Telja Félagar Sumarbúa í Súðavík að þarna sé ekki verið að líta til sömu sjónarmiða, m.a. í tilliti jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Er það sér í lagi ósk um að dvelja megi í gömlu byggðinni um hálfum mánuði lengur ár hvert og dvalartími hafjast 16. apríl í stað þann 30.
Erindið var tekið fyrir á aukafundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps þann 1. mars 2021. Er skemmst frá því að segja að sveitarstjórn telur ekki réttmætt að beita sér fyrir lengdum dvalartíma í sumarbyggðinni að svo stöddu. Fyrir því eru helst þær ástæður að talsvert hefur borið á því að fasteignareigendur í gömlu byggðinni séu að brjóta þessar dvalarreglur. Eru mýmörg dæmi um það að ekki séu virtar þær takmarkanir sem í gildi eru um dvöl í gömlu byggðinni yfir veturinn. Ljóst er að ekki ganga þar allir í takt, einstaka eigendur fasteigna virða ekki framangreindan dvalartíma og hafa gist í eignum sínum í vetur. Verður að segjast eins og er að sorglegt er hvernig nokkrir einstaklingar virða að vettugi þessar takmarkanir og bera því við að ekki sé refisvert að dvelja utan leyfilegs tíma, einungis bannað.
En meðan afstaðan er þessi er ekki að vænta stuðnings frá sveitarstjórn eða samfélaginu hér í Súðavíkurhreppi til frekari tilslakana varðandi dvalartímann í gömlu byggðinni. Lög og reglur virka ekki meðan þau eru almennt virt að vettugi eða bara farið eftir þeim stundum og stundum ekki. Það á ekki alltaf að þurfa að hengja refsikennd viðurlög við því að fara gegn þeim til þess að halda þau í heiðri. Flestum á að duga það eitt að forboðið er að rjúfa slíkan samfélagssáttmála.
Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri Súðavíkurhrepps
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.