Á næstu dögum verða áframhaldandi framkvæmdir við Langeyri á landfyllingunni. Fyrirtækið Kranar efh. mun annast þann hluta verksins að reka niður stálþil og ganga frá hafnarkantinum við nýju höfnina innan Langeyrar. Tígur ehf. mun annast jarðvinnu og jafna út fyllinguna með yfirlögn efnis, aðallega af Súðavíkurhlíð. Það verður því talsvert um að vera í framkvæmdum í sumar. Stálþilið í hafnarkantinn er væntanlegt til Súðavíkur upp úr miðjum maímánuði og verkið hefst um það leyti.
Það er farið að telja hátt í 10 ár ferlið frá því viljayfirlýsing var undirrituð við Marigot Group þann 21. nóvember 2014. Síðan hófst annað ferli þar sem sótt var um nýtingar (námuleyfi) til vinnslu kalkþörungs í Ísafjarðardjúpi, sem tók nokkur ár í meðförum viðeigandi stofnana. Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, sem kom til starfa í maí 2019, fór til Bíldudals sumarið 2019 til þess að kynna sér starsemi Ískalk á suðurfjörðunum. Sveitarstjóri fór sem sé í skoðunarferð um verksmiðjuna og hitti þar forstjóra félagsins, Halldór Halldórsson. Þann dag var öllum boðið að skoða starfsemi verksmiðjunnar og starfsemin útskýrð og upplýsingar um ferli vinnslu og vörur úr hráefninu.
Verksmiðjan var öðru vísi en sveitarstjóri hafði gert sér í hugarlund, bæði hvað varðar umgengni og útlit starfseminnar. Verksmiðjan á Bíldudal er staðsett í hjarta þorpsins við hafnarsvæðið. Einhverjar kvartanir höfðu komið fram vegna nálægðar við íbúabyggð og kalkryk frá starfseminni auk hávaða. Hvoru tveggja var minna en við var að búast (amk hvað undirritaðan varðar) enda má gera ráð fyrir einhverju raski samfara svona vinnslu. Á desibilaskala er hávaðamengun sambærileg við ísskápa, eða upp að 40 db. Flestir þeir vankantar sem varða starfsemi verksmiðju svo nálægt byggð eru víkjandi hvað varðar staðsetnigu við Langeyri. Á það við bæði hvað varðar mengun vegna kalkryks og hávaða. Slík starfsemi er undir regluverki og aðhaldi stofnana sem taka út hvorutveggja og verður lágmarkað svo sem unnt er við Langeyri.
Þann 21. nóvember rituðu Halldór Halldórsson forstjóri Ískalk (Íslenska kalkþörungafélagsins) og Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri Súðavíkurhrepps undir samning um uppbyggingu kalkþörungaverskmiðju í Súðavík að sveitarstjórn viðstaddri. Þar með var varðaður vegurinn að þeim framkvæmdum sem hafa farið fram undanfarna mánuði og ár. Fram til þessa hefur fjármögnun af hendi Súðavíkurhrepps verið án lántöku og hefur uppgjör undanfarinna ára ekki borið þess merki að fjárfest hafi verið fyrir háar fjárhæðir á skala fámenns sveitarfélags. Engar kröfur á sveitarfélagið eru útistandandi og er allt í skilum sem varðar Súðavíkurhrepp. Flest í framkvæmdum hefur fallið með sveitarfélaginu, svo sem samstarf um að taka við efni í landfyllingu úr dýpkun Ísafjarðarhafnar og starfsemi þar. Útboð vegna niðurreksturs stálþils fór með þeim hætti að verktaki samdi við sveitarfélagið og Vegagerðina um verk undir áætlun. Þá hefur samstarf við Tígur ehf. verið framúrskarandi og ánægjulegt að flest sem unnið hefur verið hafi verið á hendi fyrirtækis í heimabyggð.
Öll leyfi hafa verið afgreidd sem varða vinnslu kalkþörungs og uppbyggingu verksmiðju sem gert er ráð fyrir í ferlinu. Frá upphafi hefur legið fyrir að verksmiðjan þurfi um 8 MW raforku til reksturs, en þau mál eru ófrágengin, enda framboð raforku í Súðavík afar takmarkað. Verður því að gera ráð fyrir að verksmiðjan verði keyrð á gasi fyrst um sinn nema hraðar vendingar verði hvað það varðar.
Vinna við landfyllingu (fyrirstöðugarð) innan Langeyrar hófst á vordögum 2022. Áður hafði verið flutt efni úr dýpkun Súðavíkurhafnar (árið áður 2021) þar sem Grettir Sterki og Pétur Mikli kláruðu að gera Súðavíkurhöfn skipgenga, en fyrstu ferðir fór Sóley inn að Langeyri vegna fyrstu tilrauna til dýpkunar við Súðavíkurhöfn. Efni sem var fyrirstaða skipaumferðar um höfnina reyndist grófara en Sóley réð við að dæla upp.
Fór með ferðum Sóleyjar saman forvinnsla á efnisflutningum (þó það hafi verið dropi í hafið) en leyfi fékkst auk þessa fyrir varpi efnis úr dýpkun sem er þungt í vöfum. Efni var síðan tekið af Súðavíkurhlíð og úr gömlu námunni í Árdalnum í Súðavík. Sú framkvæmd, að taka efni úr námunni í Árdal, var umdeild þar sem ekki mátti sprengja meira í námunni - einkum vegna nálægðar við vatnsverndarsvæði. Frágangur eftir efnistökuna er góður þannig að ekki verður áætlað að tjón hafi orðið af, en mikill sparnaður var við flutning efnis auk þess sem tímafrekt er að fá afgreitt leyfi til þess að opna nýja námu. Ekkert var þó umdeilt með efnistöku af Súðavíkurhlíð og er táknrænt varðandi hug íbúa sveitarfélagsins til þessarar annars fallegu hlíðar. Hefur enda farið saman breikkun vegar og skeringar farið saman við efnistöku af hlíðinni.
Nú á vordögum er búið að haugsetja það efni sem þarf til þess að jafna yfir fyllinguna og gera byggingarlóð klára undir verksmiðjubyggingu. Samkvæmt upplýsingum frá Ískalk mun stefnt að gangsetningu verksmiðju árið 2026. Að því er stefnt og munu framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar og Súðavíkurhrepps miðast við það. Tilraunavinnsla efnis (uppdælingu kalkþörungs) úr Ísafjarðardjúpi mun standa yfir í sumar og verður það efni flutt til Bíldudals til úrvinnslu og greiningar. Áformað er að hefja uppbyggingu um leið og prófanir staðfesta að lóð undir verksmiðju verði byggingarhæf, þ.e. sig- og burðarþolspróafnir sem þola þann efnismassa sem settur verður ofan á fyllinguna. Einnig þarf að leysa drenun vatns við fyllinguna og verða þær framkvæmdir væntanlega áformaðar árið 2024 eða í byrjun árs 2025.
Stefnt er á upplýsingafund (íbúafund) í Súðavík í júní 2024 þar sem framkvæmdirnar sem eru framundan verða kynntar og þau áform sem varða þetta verkefni sem er samstarf Súðavíkurhrepps og Ískalk með fulltingi Vegagerðarinnar. Það sem snýr að Vegagerðinni nú er að annast hafnarframkvæmdir. Kranar efh. munu sjá um að gera þilhluta hafnarinnar og klára uppsetningu polla og þess búnaðar sem slík starfsemi útheimtir. Útfærsla er á sviði tæknideildar (hafnarsviðs) Vegagerðarinnar.
Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.
Opið kl. 10:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00 virka daga.