Borgarafundur í Súðavík

Borgarafundur var haldinn í Súðavík fyrir íbúa Súðavíkurhrepps og hófst hann kl. 13:00 og fór fram á sal Súðavíkurskóla.

Á fundinum var farið yfir þau málefni sem brenna á íbúum og sveitarstjóri og sveitarstjórn fyrir svörum. Dagskrá var opin um málefni sveitarfélagsins um hvaðeina og endurspeglaði umræðan það. Var opnað á umræðum um sameiningarmál og var það helst af þeirri umræðu að marka að íbúum finnst að samgöngur þurfi að spila þar hlutverk, enda erfitt landfræðilega að sameinast nágrönnum. Áltafjarðargöng væru í raun forsenda þess að opna möguleika á sameiningu, nema farið sé fram hjá landafræðinni í því samhengi. Rætt var um gróður í þorpinu í Súðavík, aspir og lággróður, og skiptar skoðanir um ágæti. Þá var farið yfir málefni sem varða sölu eigna á Langeyri og um það skiptar skoðanir. Eignir voru seldar hæstbjóðanda og fátt meira um það að segja. Ívilnandi gerningur gagnvart Bj.sv. Kofra er innan þess sem sveitarstjórn hafði ákveðið og kaupsamningur um það húsnæði sem þeim er útvegað á nýjum stað er undantekning frá þeirri stefnu að selja ekki einstök bil í húsunum á Langeyri. Þá var rætt um stjórnsýslu í sveitarfélaginu og afgreiðslu erinda sveitarstjóra og sveitarstjórnar. Um það eru skiptar skoðanir þegar kemur að upplýsingaskyldu um afdrif mála en farið yfir það sem gildir að stjórnsýslurétti. Einnig farið yfir félagsstarf, eflingu þess fyrir eldri karlmenn samfélagsins og um líkamsrækt á Langeyri, framtíð þeirrar starfsemi og staðsetningu. Þau mál munu óhjákvæmilega taka breytingum m.t.t. sölu á húsnæði á Langeyri sem hýst hefur líkamsræktaraðstöðu. Unnið verður að lausn hvorutveggja.

Mæting var minni en vænst var, en um þrjátíu manns mættu fyrir utan sveitarstjórn. Því má ætla að um 1/6 hluti íbúa hafi verið á fundinum.

Hlé var gert á almennri umræðu um kl. 14. og kom Halldór Halldórsson forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins inn með kynningu á starfsemi félagsins á Bíldudal og þau áform sem uppi eru um starfsemi í Súðavík. Halldór svaraði fyrirspurnum og voru umræður um málefnið góðar. Að því loknu rituðu sveitarstjóri fh. Súðavíkurhrepps og Halldór undir samstarfssamning um starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins í Súðavík. Var þar stórum áfanga náð og kærkomið fyrir bæði félagið og Súðavíkurhrepp. 

BF 2 BF 3BF 7

BF 1BF 5BF 8