Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2020 »
« Júlí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni
ţriđjudagurinn 25. júní 2019

Júnímánuđur í Súđavíkurhreppi.

Þá er langt liðið á júní og veðrið hefur verið fallegt að mestu allan mánuðinn á Vestfjörðum, ekki síst hér í Súðavíkurhreppi. Sólríkur mánuður og veðrið almennt þannig, helst hefur skort á rigningu líkt og víðar um land þannig að gróður fer að láta á sjá. Örlítil skúr sl. sólarhring hefur gert gott. Gefið hefur á sjó flesta daga fyrir strandveiðar og unnt að stunda sjóstangveiðina. 

Af málum hreppsins er það helst að vænst er þess að Skipulagsstofnun skili af sér skipulaginu fyrir Súðavíkurhrepp til athugasemda - jafnvel í vikunni.  Þá tekur við 6 vikna opið ferli þar sem unnt er að koma að athugasemdum. Þar með má segja að líklegt má telja að undir haustið megi vænta þess að unnt verði að staðfesta nýtt skipulag. Út frá því megi vinna framtíðaráform fyrir uppbyggingu í Súðavíkurhreppi, vonandi samfélaginu öllu til góðs. Sá sem þetta ritar er að minnsta kosti bjartsýnn á að það komist einhver hreyfing á atvinnuuppbyggingu í hreppnum.

Undanfarna daga hafa verið framkvæmdir í Súðavík. Búið er að gera við og fylla holur í götum gömlu byggðarinnar. Þá eru framkvæmdir alla daga í Raggagarði. Er það mikið gleðiefni hversu mikið hefur þar unnist og mun garðurinn án efa fá enn meira aðdráttarafl með þeirri viðbót sem komin er og væntanleg. Þá hafa verið nokkuð reglulegar komur ferðamanna í tengslum við Melrakkasetur og sýningu sem fram fer í Grundarstræti. Ferðamenn hafa í það minnsta ekki verið sviknir af veðri og hefur Súðavík skartað sínu fegursta, en ekki síst með aðkomu yngstu verkamannanna sem hafa verið undanfarna daga að störfum fyrir sveitarfélagið. 

Refaskytta er mætt á svæðið og hefur þegar hafið störf og unnið á ref. Verður hann að störfum næstu dagana við hefðbundna grenjavinnslu. Ábendingar um grenstæði og mink á svæðinu eru vel þegnar. Refaskyttan hefur minkahund og mun sinna þeim verkefnum sem upp koma. Unnt er að hafa samband við skrifstofu Súðavíkurhrepps það varðandi.  

Undirritaður mun samkvæmt því sem rætt hefur verið á fundum sveitarstjórnar og þeirra nefnda sem hafa fundað undanfarið, hrinda í framkvæmd eftir getu eftirfarandi:

* Úrlausn á aðkallandi verkefnum vegna skólahúsnæðis, en endurbóta er þörf vegna leka í matsal auk þess sem ýmis önnur brýn viðhaldsverkefni hafa komið upp. 

* Stefnt er léttu viðhaldi annarra eigna sveitarfélagsins, en því verður að einhverju leyti forgangsraðað. 

* Framundan er vinna við frekara samstarf við nágranna sveitarfélög um slökkvilið. Fréttir af þeim áformum hafa verið kunngerðar á bb.is

Undirritaður mun reyna eftir föngum að upplýsa um það sem er á döfinni og varðar beint íbúa hreppsins, bæði Súðavík og byggð í Djúpi, eftir því sem því verður við komið. Þá er jafnframt óskað ábedinga um efni sem æskilegt er á vef sem þessum. Ný heimasíða mun líta dagsins ljós á næstu mánuðum, síðan er klár á sama léni en uppsetning efnis og kennsla á umsjón síðunnar er eitthvað sem þarf að fara fram fyrst. Eru hugmyndir um að hafa stjórnsýsluna eitthvað opnari en verið hefur, en það verður kynnt síðar og mætti jafnvel bera undir könnun íbúa.

Fiskeldisfrumvarp hefur verið tíðrætt í helstu fréttamiðlum landsins. Mun undirritaður ekki íþyngja íbúum hreppsins með því hér að öðru leyti en því að samvinna er með sveitarfélögum Vestfjarða um að tala fyrir atvinnuuppbyggingu, þrátt fyrir að áherslur sveitarfélaganna séu misjafnar eftir því hver aðkoma fiskeldis er á fjörðunum. 

Ég er eflaust að gleyma að nefna eitthvað sem stendur ykkur nær í fréttaflutningi, en læt þetta duga í bili. 

Með kærri kveðju,

Bragi Þór Thoroddsen

 

Vefumsjón