Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2020 »
« J˙lÝ »
S M Ů M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni
laugardagurinn 12. oktˇberá2019

Huglei­ingar Ý oktˇber 2019

Það er orðið nokkuð haustlegt hér á norðanverðum Vestfjörðum, í það minnsta þegar litið er til fjalla. Snjóað hefur á heiðar og efri hluta fjalla og minnir veturinn þannig á sig og hvaða mánuður er uppi. Aldrei er á vísan að róa með hvers konar veðurfar er boðið upp á, en sjómenn kannski hafa þar mestan hag af svo og bændur. Og raunar svo mörg atvinnugreinin enda byggir ferðaþjónusta m.a. á árstíðaskiptum markaðsettum ferðum. Á það við hvort heldur er reynt er að selja sól og sumar eða norðurljósaferðir og ís. 

Haustið hefur verið fallegt hér og að mestu án þess að unnt sé að kvarta undan veðri. Eitthvað hefur þó verið upp og ofan með að gefi á sjó, enda flotinn hér aðallega bátar undir 10 brl. Í eina tíð voru slíkir bátar dregnir upp á kamb að hausti og ekki sjósettir fyrr en fór að vora aftur. En nú er tíðin önnur og stjórn fiskveiða leiðir þessa atvinnugrein í hringi. 

Líkt og ég vék að í innslagi í lok september stendur til að finna lausn á lausagöngu búsmala hér í Súðavíkurþorpi. Ástandið hefur verið óviðunandi, en árið 2019 ætti slíkt að heyra fortíð til að skepnur gangi um þorp og bíti í görðum. Svo ekki sé nefnt að þær skilji afurðirnar eftir á götum og gangstéttum. Þetta hefur tekið mikinn tíma fyrir starfsfólk hreppsins auk þeirra annarra sem hafa gefið sig í smalamennsku til að vísa þessum elskum úr þorpinu. Þrátt fyrir að henda megi gaman að þessu, endrum og eins, tel ég að kröftum starfsfólks hreppsins og skólastjóra og allra þeirra annarra sem hafa komið að þessu sé betur varið í annað. 

Lausnin ætti að vera varanleg ef ráðist er í hana á annað borð, en nærtækast er að skoða færslu grindarhliðs nær Langeyri og með tengingu girðingar upp í þá sem fyrir er ofan þorps. Um þetta má sjálfsagt deila, en ég held að þetta verði að lagfæra með einhverjum slíkum aðgerðum í samráði við Vegagerðina. En árstíðin hefur létt þessu af um stund og mætti ætla að þetta gefi frest fram á vorið þegar sauðfé er sleppt út að loknum sauðburði.

En að fasteignum Súðavíkurhrepps.

Ófremdarástand hefur verið á skólanum, þeim hluta sem hýsir mötuneyti. Byggingin, sem er hönnun arkitekts, er ekki til þess fallin að standast veðurfar, glerhlutinn sem snýr mót sól og vindum. Í rigningum undafarið hefur þetta skerpst og þar þarf að bæta úr, enda gluggi ónýtur sem og hluti veggs sem snýr þar að og regn lemst óhindrað á. Brýnt er að leysa úr þessu þannig að skólahald raskist sem minnst, en einnig að loka þessu áður en vetur gengur í garð með því veðri sem hann kann að bjóða upp á. Ástand fleiri eigna er komið á tíma hvað varðar viðhald, en verið er að vinna í bæði skóla og samkomuhúsi. Fleira af húsnæði í eigu og á vegum hreppsins er líkast til þannig að þurfi að bæta í og lagfæra, en þó ekkert sem er þannig brýnt að liggi undir skemmdum.

Þá þarf að fara að huga að höfninni og þeim framkvæmdum sem ég vék að hér fyrir skemmstu. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þetta í farvegi þannig að úrbætur ættu að vera á næstu misserum. Varðandi tímasetningar er örðugt að lofa þegar aðrir þurfa að efna, en ég á þó frekar von á því að Vegagerðin verði okkur hliðholl varðandi amk dýpkun hafnarinnar.

Búið er að laga ræsi við Kolbeinslæk, en ræsi þar var orðið tæpt og mikið grafið úr bökkum. Eftir rigningar undanfarna daga hafði enn frekar rofnað úr bökkum og tímaspursmál hvenær ræsið færi með ófyrirséðum afleiðingum. Hætt er við að vegur hefði getað gefið eftir ef þetta hefði farið af stað. 

Sveitarstjórnarfundur er á föstudaginn kemur, en eitthvað af því sem hér er rakið verður þar til frekari umræðu. Þá styttist í það að sveitarstjórn fari að setja saman fjárhagsáætlun og þar ættu línur að skýrast frekar varðandi áherslur í úrbótum og viðhaldi mannvirkja. 

Og til upplýsingar.

Líkt og fram hefur komið í fréttum í lok september var Súðavíkurhreppi ásamt Tjörneshreppi og Reykhólahreppi vikið úr samráði samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá er sveitarfélaginu einnig forboðið að fá neina ráðgjöf í kjaramálum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, eða fá upplýsingar um framgang kjaraviðræðna. Mun það leiða til þess að hreppurinn verður að semja beint við þau stéttarfélög sem varða starfsemi sveitarfélagsins.

Ástæða brottvísunar úr samningaferlinu er sú að ég fór eftir áskorun stéttarfélaga um að greiða eingreiðslu til þeirra starfsmanna sem starfa hjá Súðavíkurhreppi sem standa í kjaraviðræðum við samninganefndina. Eingreiðslan var ákvörðuð af aðilum í samningaferlinu, enda samningar lausir um talsverða hríð auk þess sem fyrirsjáanlegt var að þessi greiðsla yrði hluti þess sem um yrði samið. Hafði Reykjavíkurborg með sérsamningum gengið frá þessari greiðslu og fleiri sveitarfélög við nokkur aðildarfélög, en Samband íslenskra sveitarfélaga ákvað að leggjast gegn því að greitt yrði til nokkurra félagasmanna sem áttu aðild að þeim félögum þar sem hluti samninga fór í þóf.

Í sem skemmstu máli þótti mér það rangt í alla staði að örfáum starfsmönnum sem höfðu kjarasamninga við sveitarfélög í gegnum stéttarfélög sem ekki náðu saman við samninganefndina, yrði haldið utan við þessa greiðslu og þannig þrýst á í kjaradeilu. Stærstur hluti starfsmanna sveitarfélaga sem voru að öðru leyti í sambærilegri stöðu höfðu fengið þessa greiðslu. Þess utan er einungis um að ræða innborgun á kjarasamninga í smíðum, hvenær svo sem það mun lánast að ná saman. Vísast mun þetta þykja maklegt hjá stjórn Sambandsins að afgreiða þau sveitarfélög sem rufu samstöðuna með þessum hætti, en um þetta eru samt sem áður skiptar skoðanir.

Eftir stendur að umboð Súðavíkurhrepps að samninganefnd Sambandi íslenskra sveitarfélaga var heimsent og afturkallað með bréfi frá framkvæmdastjóra þess, auk þess sem þessum tíðindum var sérstaklega haldið á lofti á Fjármálaráðstefnu á vegum Sambandsins í liðinni viku. Þá var sérstakur brandari á ráðstefnunni um úrsögn Tjörneshrepps. Þykir mér lítt sæma starfsfólki sambandsins að flíka þannig áliti sínu á litlum sveitarfélögum sem ekki finna málsvara sinn í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá hef ég einnig kallað eftir upplýsingum frá Sambandinu um aðdraganda brottvísunar og um þau ákvæði sem leiddu til brottvísunarinnar. 

Vísast til er Súðavíkuhreppur stjórnsýslueining sem fær að standa og falla með málsmeðferð á Alþingi yfirstandandi þings. Búið er að kynna málefnið þinginu og einhverjar umræður hafnar um það meðal þingmanna, ráðherra og ráðuneyta. Framundan er Haustþing Fjórðungssambands Vestfjarða. Þar mun meðal dagskrárliða rætt um framtíð fjórðungsins eftir 2026. Er það sama tímamark og er á lokahrinu boðaðra sameningar sveitarfélaga undir tilteknum stærðum; 250 íbúar, 500 íbúar og 1000.

Ég tel að rétt sé að taka þessu öllu af æðruleysi, hvernig svo sem umræðan verður. Vísast hefur ráðherra með sér þingmeirihluta til þess að klára þessa umræðu og leiða til lykta. Liggur talsverð vinna í þessari þingsályktunartillögu sem ráðuneyti sveitarstjórnarmála vill ekki að fari forgörðum. Ætla má að tillögunni hafi verið tryggt fylgi, hvort sem henni er ætlað að standa í óbreyttri mynd eða ekki. Thorbjörn Egner innrammaði þá hugmyndafræði sem er brú yfir breytingar. Var það þegar íbúum Hálsaskógs var raunar gert, löngu fyrir tískustrauma, að gerast vegan. Alla vega var forboðið að dýrin ætu hvert annað. Bakaradrengnum varð að orði: Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. 

Látum þetta nægja að sinni, enda flestar þessara frétta áréttun fyrri umræðna og annars sem komið hefur frá öðrum miðlum. 

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri

 

 

 

Vefumsjˇn