Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2020 »
« Júlí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni
mánudagurinn 19. ágúst 2019

Grćnbók og stefna í sveitarstjórnarmálum.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið í svokallaðri Grænbók um málefni sveitarfélaga. Þetta er verkefni sem hefur forsögu til sumarsins 2018, en vinna hófst af alvöru í lok desember 2018. Yfirskriftin er að vinna að mörkun stefnu um málefni sveitarfélaga og þemað að sveitarfélög verði sjálfbær og um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Ráðherra skipaði starfshóp sem átti að skila tillögu og hlaut afurð hópsins nafnið Grænbók og var birt á vormánuðum; Grænbók - Stefna um málefni sveitarfélaga.

Undirritaður hóf störf hér um mánuði eftir að þetta skjal var birt, þann 1. maí 2019, og hefur því ekki haft aðra aðkomu en að mæta á fund á Ísafirði þar sem samtal við sveitarfélögin á Vestfjörðum átti sér stað í vor. Var fundurinn haldinn með fulltrúum sem standa að hópnum og spunnust líflegar umræður um málið þar sem kynnt var að frá og með 2022 væri lágmarkstala fyrir sveitarfélag 250 manns og frá og með 2026 yrði lágmarkið 1000 íbúar. Þetta útilokar frá 2025 öll sveitarfélög á Vestfjörðum í núverandi mynd frá því að teljast sveitarfélag, en ekki liggur fyrir hver "viðurlögin verði". Þó  hefur verið viðrað að stýra verkefninu gegnum Jöfnunarsjóðinn og stýra þannig framlögum eftir vilja til sameiningar.

Líkt og ykkur, íbúum Súðavíkuhrepps, má vera kunnugt verðum við að óbreyttu ekki hreppur án aðkomu annarra frá og með 2022 nema eitthvað breytist. Þetta er stefna starfshópsins, en hópinn leiðir fyrir hönd sveitarfélaganna Aldís Hafsteinsdóttir - bæjarstjóri í Hveragerði. Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungarvík var nýverið fyrir svörum með Aldísi á Sprengisandi visir.is um málið. Má heyra af Aldísi að hún telur þetta til góðs. Það mál líka til sanns vegar færa að aðstæður eru aðrar á Suðurlandi með nágranna og einnig á SV-horninu, en samgöngur hindra ekki sinningu á þjónustu milli byggðarlaga. Jómn Páll var á frekar öndverðum meiði við Aldísi og er það mat mitt að hann spegli frekar hug Vestfirðinga í dag, þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa sameinast öðrum. 

Bolvíkingar stefna á, samkvæmt Jóni Páli, að ná 1000 fyrir 2026 og halda "sjálfstæði" sínu og hafa mótmælt þessari þvingun yfirvalda í sameiningarátt bb.is. Undirritaður er aðeins framkvæmdarstjóri sveitarfélagsins Súðavíkurhrepps og hefur því ekki með sér mótaðar hugmyndir þeirra sem hreppinn byggja eða umboð til þess að leiða sameiningarmál. Þó má vera ljóst að kostir í sameiningarátt eru ekki margir raunhæfir ef þessar tölur eiga að gilda, þ.e. eftir 2026. Þykir undirrituðum það mikið atriði ef til sameiningar kemur, að halda eftir þeim störfum hér í þorpi og hrepp öllum, sem í dag eru rækt. Það er erfitt að ímynda sér að t.a.m. Ísafjarðarbær muni koma að slíkri sameiningu og samþykkja að stjórnsýsla yrði hér í Súðavík, né heldur aðrir nágrannar með burði í 1000 íbúa markið nema Bolungarvíkurkaupstaður.

Þá hlítur það að vera mikið atriði að hér sé heilsársvegur fær í næsta sveitarfélag sem myndi sameinast Súðavíkurhreppi ef þetta á að vera í raun réttri eitt þjónustusvæði. Erfitt gæti verið að sækja alla þjónustu út fyrir Súðavík á þungum vetri við óbreytt landslag í samgöngum. Má þá kannski vera betur varið fjármunum sveitarfélagsins til eigin þarfa á staðnum en að vera í samfloti með allt. 

Þessi grein er ekki úlfur, úlfur; ekki varnaðarorð um þvingaða sameiningu sveitarfélaga og þar með Súðavíkurhrepps. Þessari grein er ætlað að vera áskorun um að láta raddir ykkar heyrast enda er opið fyrir samráðsferli hjá stjórnvöldum um málið til 10. september 2019 - ramminn er stuttur. Sjá https://samradsgatt.island.is - öllum gefst færi á að koma að sínum hugmyndum. 

Vert er þó að hafa í huga hvernig staðan er í nágrannasveitarfélögunum og hvaða hugmyndir þið hafið um að rækja hér samfélag. Fyrir mína parta tel ég sóknarfæri í Súðavíkurhreppi, bæði með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum í samvinnu sem og á eigin forsendum Súðavíkurhrepps. Ég tel ekki tímabært að afskrifa Súðavíkurhrepp sem sjálfstætt stjórnvald og ber um langa tíð mikla virðingu fyrir sjálfstæði þeirra eininga sem teljast hreppar og sveitarfélög.  

Með kærri kveðju,

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóriVefumsjón