Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2020 »
« Júlí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni
ţriđjudagurinn 23. júlí 2019

Gönguhátíđ í Súđavík

Dagna 2. - 6. ágúst 2019 (verslunarmannahelgina) verður gönguhátíð í Súðavík. Gönguhátíðin er á vegum Göngufélags Súðavíkur, Súðavíkurhrepps og göngufélagsins Vesen og vergangur. Dagskráin ásamt helstu upplýsingum er hér á síðunni. Er boðið upp á gönguferðir með leiðsögn og uppákomur tengdar hátíðinni. Eitthvað fyrir alla aldurshópa, byrjendur og lengra komna.  

Gönguhátíð í Súðavík um verslunarmannahelgina 2019

Um verslunarmannahelgina 2. – 6. ágúst verður hin skemmtilega gönguhátíð í Súðavík haldin í fimmta skipti. Fjölbreyttar göngur verða á dagskrá fyrir fólk á öllum aldri og fjörugar uppákomur á kvöldin.

Gönguhátíðin í Súðavík er samvinnuverkefni göngufélags Súðavíkur, gönguklúbbsins Vesens og vergangs og Súðavíkurhrepps. Auk þess er samstarf við Ferðafélag Ísfirðinga og fleiri aðila.

Miðstöð gönguhátíðarinnar er í Jóni Indíafara í Grundarstræti og þar verður opið að mestu leyti alla helgina og hægt að kaupa armband, fá hafragraut og kaffi og fá upplýsingar um dagskrána.

Fylgist með á Facebook: https://www.facebook.com/gonguhatid/

Dagskrá

Föstudagur 2. ágúst

Kl. 17  Fjölskylduganga að Lambárgili í Hestfirði

Keyrt frá Jóni Indíafara í Súðavík kl. 17 og bílum lagt í botni Hestfjarðar. Gangan hefst líklegast kl. 17:40. Gengið verður gengið inn að Lambárgili þar sem eru gríðarlega fallegir fossar. Gangan er við flestra hæfi. Vegalengd ca 2 km, hækkun takmörkuð og gangan tekur klukkutíma. Barði Ingibjartsson leiðsegir. Stefnt er á að vera með léttar veitingar í gilinu.

Kl. 21:00 Brenna á fjörukambi neðan Aðalgötu, utan kirkju 

Takið með söngröddina og góða skapið. Á eftir verður hist á Jóni Indíafara í létta stemningu þar sem fólk tengist göngufélögum. Vegna þurrka verður ekki lagt að hafa brennu í gömlu sundlauginni, en verður góð stemmning við sjóinn.  

Laugardagur 3. ágúst

08:00-10:00 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti og kynning á göngum dagsins

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Hist verður á Jóni Indíafara. Grauturinn er í boði fyrir fólk með armband en kostar annars kr. 500, einnig er kaffi á könnunni og te í boði. Um kl. 8:30 verður fjallað um göngur dagsins.  

09:00 Vatnshlíðarfjall í Álftarfirði (þrír skór)

Gengið verður á Vatnshlíðarfjall sem er í botni Álftafjarðar með Hattardal og Seljadal á hvora hönd. Magnað útsýni yfir Álftafjörðinn. Fólk kemur saman við Jón Indíafara í Súðavík kl. 9 og sameinast í bíla í botn Álftafjarðar. Farið er hæst í 650 m hæð yfir sjávarmáli og gangan tekur ca sex tíma. Fararstjóri Anna Lind Ragnarsdóttir.

09:00 Í fótspor Harry Eddom (tveir skór)

Í febrúar árið 1968 gekk aftakaveður yfir Vestfirði og á tveimur dögum fórust 25 manns af tveimur togurum og einum báti. Harry Eddom var sá eini sem bjargaðist af breska togaranum Ross Cleveland og náði að komast í land við Seyðisfjörð í Djúpinu og ganga inn í botn fjarðarins í brunagaddi þar sem hann fannst. Í göngunni verður byrjað á því að ganga út að Hestfjalli og svo niður að sjó þar sem Eddom kom að landi og svo er gengið í fótspor hans inn í fjarðarbotninn þar sem hann fannst fyrir tilviljun eftir að allir höfðu talið hann af. Fólk kemur saman við Jón Indíafara í Súðavík kl. 9 og sameinast í bíla í botn Seyðisfjarðar. Farið er hæst í 250 m hæð yfir sjávarmáli og gangan tekur ca fjóra tíma. Fararstjóri Barði Ingibjartsson. 

Kl. 17 Síðdegisganga um þorpið – einn skór

Fjallað um þætti úr sögu Súðavíkur m.a. fyrstu hvalveiðistöðina á Íslandi á Langeyri, svæðið þar sem snjóflóðið féll 16. janúar 1995, Raggagarð og fleira.

Leiðsögumaður: Steinn Ingi Kjartansson

Hist við við Jón Indíafara í Súðavík kl.17:00 

Kl. 20:00 Sameiginlegt grill í Raggagarði

Grillin verða orðin heit kl. 20 og hægt að koma með eigið kjöt á grillið eða kaupa grillaðar pylsur á vægu verði. Pappadiskar og hnífapör verða á staðnum. Spiluð verður létt tónlist.

Raggagarði hefur verið líkt við risastóra leikskólalóð þar sem hægt er að gleyma sér í fjölbreyttum leiktækjum, rennibrautum og rólum. Ef veður er ekki nógu gott verður hið sameiginlega grill flutt niður að Samkomuhúsi og þar verður kynt upp í tunnugrillinu og þá geta gestir borðað innandyra.  

Kl. 22 Dansleikur í Samkomuhúsinu í Súðavík

Fjörugt ball í framhaldi af grillinu þar sem dansað verður inn í nóttina. Gestir koma með drykkina með sér. Ókeypis fyrir þá sem eru með gönguarmband en kostar annars kr. 1500.

 

Sunnudagur 4. ágúst

08:00-10:00 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti og kynning á göngum dagsins

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Hist verður á Jóni Indíafara. Grauturinn er í boði fyrir fólk með armband en kostar annars kr. 500, einnig er kaffi á könnunni og te í boði. Um kl. 8:30 verður fjallað um göngur dagsins. 

9:00 Kaldbakur (2 skór)

Stefnan er tekin á hæsta fjall Vestfjarða. Við hittumst við Jón Indíafara í Súðavík kl. 9 og tökum samflot í bílum. Farið verður frá Bónus Ísafjarðarmegin kl. 9:30. Svo verður gengið á Kaldbak. Vegalengd ca 7 km, hækkun ca 500 m og göngutími 4-5 tímar.

Leiðsögn: Barði Ingibjartsson 

12:00 Ögurganga

Gengið frá Ögri og upp á útsýnisstað þar sem má sjá glæsilegt útsýni yfir Skötufjörð, Vigur, Ísafjarðardjúp og Æðey. Þarna eru einnig mestu hvalaslóðir Djúpsins og algengt að sjá hnúfubaka í ætisleit. Hist er við samkomuhúsið í Ögri, hægt að leggja bílum þar og lagt af stað kl. 12.  Leiðsögn: Guðfinna Hreiðarsdóttir. Vegalengd: ca 6 km og hækkun 250 m og göngutími um 2 tímar. Verð fyrir manninn er kr. 1500 og er greitt á kaffihúsinu í Ögri (sama verð fyrir börn og fullorðna). Innifalið að fá kaffi/te/kakó og kökusneið í lok göngu á kaffihúsinu í Ögri.

Athugið að það tekur rúman klukkutíma að keyra frá Súðavík að Ögri.  

18:30 Kynt upp í grillinu fyrir utan Jón Indíafara 

Kl. 21:00 Söguganga í Kambsnesi (einn skór)

Stutt ganga þar sem farið verður með sögur úr Djúpinu. Meðal annars af Vébirni hinum ástfangna, af fólki í Folafæti og af skáldinu Magnúsi á Þröm sem birtist svo í Heimsljósi Laxness. Takið með heitt á brúsa og hugsanlega hjartastyrkjandi því að fjallað verður um ástir, örlög, hamingju og einnig ógæfu í Djúpinu.  Vegalengd innan við 1 km og tekur 1-2 tíma.

Hist verður við Jón Indíafara og keyrt af stað kl. 20:40, það tekur um 15 mínútur að keyra fyrir fjörðinn og á Kambsnes. Lagt verður á útsýnissvæðinu andspænis Súðavík þar sem sér yfir Álftafjörð, Súðavík og nágrenni. 

 

Mánudagsmorgunn 5. ágúst

08:00-10:00 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti og kynning á göngu dagsins

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Hist verður á Jóni Indíafara. Grauturinn er í boði fyrir fólk með armband en kostar annars kr. 500, einnig er kaffi á könnunni og te í boði. Um kl. 8:30 verður fjallað um göngu dagsins. 

Kl. 9  Morgunganga á Kofra (635m) (tveir skór)

Í fylgd með Önnu Lind Ragnarsdóttur og Barða Ingibjartssyni, en líklega hefur enginn (lífs eða liðinn) gengið oftar á Kofrann en Barði. Barði verður með sögustund á toppnum um kraftinn í Kofra. Hámark 30 manns.

Vegalengd: 3 km. Hækkun 600 m, Göngutími: 4-5 tímar.

Leiðsögn: Anna Lind Ragnarsdóttir og Barði Ingibjartsson.

Almennar upplýsingar

Verðskrá:

Verð í styttri göngur er kr. 1500.

Verð í lengri göngur er kr. 3000.

Verð á gönguarmbandi er kr. 7.000 (innifalinn er aðgangur að öllum gönguferðum, gisting á tjaldsvæði Súðavíkur, hafragrautur á morgnana og aðgangur að balli í Samkomuhúsinu á laugardagskvöldinu).

Armband kostar kr. 1500 fyrir börn á grunnskóla- og leikskólaaldri og 50% afsláttur er fyrir 16-18 ára. Athugið að ganga í Ögri er ekki innifalin í armbandi.

Miðstöð gönguhátíðarinnar er í Jóni Indíafara í Grundarstræti og þar verður hægt að fá upplýsingar um hvaðeina sem tengist gönguhátíðinni, kaupa armband (og fá afhent fyrirframgreitt armband) eða aðgang að einstökum göngum, fá upplýsingar um dagskrá, ráðgjöf um búnað, borða hafragraut á morgnana og drekka kaffi og te allan daginn, þar verður líka létt stemning á föstudags- og sunnudagskvöldinu.    

Aðrar gönguleiðir

Hægt er að prófa ýmsar aðrar gönguleiðir á svæðinu með Wapp-Walking app. Gönguleiðir eru í Heydal, Vatnsfirði, á Hvítanesi við Skötufjörð, í Álftafirði og tvær leiðir eru í Skutulsfirði og nokkrar leiðir við Korpudal í Önundarfirði.  

Aðstandendur hátíðarinnar:

Í forsvari fyrir gönguhátíðina er Einar Skúlason – GSM 663 2113.

Gönguklúbburinn Vesen og vergangur er á Facebook og með rúmlega 12.000 meðlimi. Farið er í ca 3-5 gönguferðir á viku. Forsvarsmaður er Einar Skúlason: https://www.facebook.com/groups/vesenogvergangur/

Göngufélag Súðavíkur stendur fyrir reglubundnum gönguferðum í Álftafirði og víðar. Formaður er Barði Ingibjartsson.

Súðavíkurhreppur er sveitarfélag við Ísafjarðardjúp og nær frá Ísafjarðarbotni að Súðavíkurhlíð við Álftafjörð.

Einnig er samstarf við Ferðafélag Ísfirðinga sem stendur fyrir fjölbreyttri göngudagskrá allt árið.

Réttur er áskilinn til að breyta um áætlun vegna veðurs. Ef aðstæður eru varasamar á fjöllum, verður boðið upp á láglendisgöngur í staðinn. Fólk tekur þátt í gönguferðum á eigin ábyrgð og er þátttakendum bent á að hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

 

Vefumsjón