Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2020 »
« J˙lÝ »
S M Ů M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni
laugardagurinn 4. jan˙ará2020

┴ri­ 2020

Gleðilegt ár kæru íbúar Súðavíkurhrepps og bestu þakkir fyrir liðið ár.

Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst ykkur og fengið að deila með ykkur samfélagi hér í Súðavíkurhreppi. Fjölskylda mín er að koma hér smám saman, við höfum verið tvö af fjórum frá því í haust og vonandi verðum við búsett öll hér frá og með vorinu. Ákvörðun mín um að bjóðast til að starfa hér fyrir ykkur sem sveitarstjóri var tekin án langs aðdraganda og hafði ég í raun gert flest að mínu fólki forspurðu. Við skiptum því með okkur liði í sumar og fram á komandi vor.

Við erum þó öll á því að flest vötn hafi fallið til Dýrafjarðar og raunar lengra yfir í Djúp. 

Það er samdóma álit minnar fjölskyldu, fólks sem hefur sótt mig heim og vísast okkar allra í Súðavíkurhreppi að hér sé gott samfélag, fallegt umhverfi og raunverulega gott að búa hér fyrir vestan. 

Þegar ég flutti í Kópavog árið 1998 lá ljóst fyrir að þar væri gott að búa. Bæjarstjórinn okkar sagði okkur það með eftirminnilegum hætti, að það væri gott að búa í Kópavogi. Löndum og lýð varð það ljóst og að baki lá nokkur alvara. Það var raunar alveg rétt hjá honum og mun ég ekki þreytast á því að halda því á lofti. Það er enda svo að í dag búa þar vel á fjórða tug þúsunda íbúa í samfélagi sem ört vex. Þar er líflegt og skortir þó það sem sligar helst Reykjavík að mínu viti. 

En nú er það vísast mitt að segja það sama hér um Súðavík og Súðavíkurhrepp. Hér er gott að búa og hér ættu fleiri að vera. Samfélagið hér er nú undir hælnum á stjórnvöldum, ráðherra málaflokksins sem ég starfa við - ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Við þurfum að vera fleiri hér í byggð segir hann en verða leyst upp ella eða færð öðrum til afnota og stjórnar. Það er óþarft að reyna að sykurhúða það neitt enda stendur enn til að fækka sveitarfélögum á Íslandi og mun sviðsmynd breytast að óbreyttu á árinu 2022 ef þingsályktun fær náð fyrir alþingi. Og það er útlit fyrir að það sé að renna í gegn á yfirstandandi þingi - vorþingi 2020.

Líkt og flest ykkar vita er það sýn ráðuneytisins sveitarstjórnamála að ekkert sveitarfélag skuli hafa færri íbúa en 1000 frá og með vori 2026. Það sé öllum fyrir bestu og í því felist efling byggðar og trygging fyrir sjálfbærni. Þannig var ályktað á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust, enda hafði ráðherra tryggt að stefnumótun væri þannig undir þing borin. Athygli vekur þó að fækkun sveitarfélaga (eflilng sveitarstjórnarstigsins) verður í þrepum - 250 íbúar árið 2022, 500 árið 2024 og svo 1000 árið 2026.

Þannig er þetta teiknað upp, matreitt fyrir alþingi og stutt samþykki og samráði á vettvangi sveitarfélaga. Og það leiðir til breytinga fyrir líkast til öll sveitarfélög á Vestfjörðum á næstu árum enda eru þau fámenn að Ísafjarðarbæ undaskyldum í skilningi þingsályktunar um stefnumótun fyrir sveitarfélögin. Aðeins Vesturbyggð telur um 1000 íbúa með sameinaða hreppa í farteskinu frá fyrri tíð. Samkæmt samantekt sem unnin var hér í fyrri tíð þótti ekki ákjósanlegur kostur að sameina sveitarfélögin hér fyrir norðan þannig að öllum gagnaðist. Auðvitað er einhver ávinningur af slíku, en hætt er við misskiptingu ávinnings. Ekki síst þegar aðstöðumunur er nokkur þegar kemur að því að semja um stjórnsýslu og þjónustu, misstór sveitarfélög og aðeins pressa á þeim sumum.

En nú er svo búið að alþingi hefur samþykkt að beita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til verksins og var það samþykkt á lokadegi þings, nú rétt fyrir jól. Jöfnunasjóður mun gera sveitarfélögunum að greiða sjálfum sér útlagðan kostnað við sameiningar og niðurfærslu skulda. Minna er tryggt af fjárlögum ríkis í verkið - raunar fann ég ekkert þar til verksins á fjárlögium fyrir 2020, það kann þó að koma síðar.

Vísast til þykja sumum berin súr í raun, aðeins fallið á silfrið. 

Ekki er mér kunnugt um af hverju þessi þrep eiga að vera fram að 2026 (250,500 og 1000) enda ekki raunhæft neinu sveitarfélagi að taka þetta í skrefum. Hér er þó ekkert nýtt á ferðinni og hefur slíkt verið viðrað áður og sameiningarkostir hafa verið skoðaðir hér með óreglulegu millibili frá ofanverðri síðastliðinni öld. Ráðherra eftir ráðherra hefur haft þetta leynt og ljóst að markmiði en óvíost er um það hversu raunhæft það er að ætla að sú krafa hafi komið frá minni sveitarfélögunum. Þetta eru hagsmunir stærri sveitarfélaga sem finnst þau fái of lítið af Jöfnunarsjóði - samkvæmt minni sannfæringu byggt á því að fennt er yfir ástæður og tilurð Jöfnunarsjóðs við kynslóðaskipti í stjórn sveitarfélaga og þar með sjóðsins sjálfs. 

Samkvæmt því sem fram kemur hjá ráðuneytinu og starfshópi sem skipaður var í aðdraganda að þingsályktuninni hefur samráð verið haft við sveitarfélögin fámennu. Allt að einu er það skilningur minn og flestra þeirra sem starfa fyrir fámenn sveitarfélög að það hafi ekki verið gert. Mín upplifun er raunar hin gagnstæða - að skoðanir og rök minni sveitarfélaga hafi á flestum vettvangi hafi verið virt að vettugi og að engu höfð. Á fundi sem boðað var til í vor af starfshópnum var þetta rætt og kom fram hjá felstum sem þar tjáðu sig að víðtæk mótstaða væri við þessa stefnumörkun og um skilgreiningu sjálfbærs sveitarfélags. En þeir sem tóku saman fundargerðir eftir fundina létu í annað skína.

Þetta var svo geirneglt með samþykki Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust, en þar fannst mér og mörgum öðrum að þvingun hafi átt sér stað úr rangri átt. Bera ráðamenn því við að um sé að ræða vegferð sem hafi verið borin undir sveitarfélögin sjálf, að það hafi verið samþykkt af sveitarfélögunum á samstarfsvettvangi þeirra og þá sé aðeins samþykki alþingis eftir. 

Ég vil ekki koma fram sem andófsmaður við ráðagerð Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en mun þó fylgja eftir því sem ég skynja í samfélaginu hér í Súðavíkurhreppi. Þá mun ég líka fylgja sannfæringu minni og sýn sem ég hef á lög og landsrétt, enda þykir mér aðferðafræðin við þetta allt röng. Ekki síst í ljósi þess að um málaflokkinn allan gildir ákvæði Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Auk þess gilda um sveitarfélög og sjálfsstjórn þeirra evrópusáttmáli um sjálfsstjórn sveitarfélaga, en Ísland hefur innleitt hann og fullgilt og byggja gildandi sveitarstjórnarlög á þeim sáttmála og víða í hann vitnað. Þá byggir sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga á langri stjórnsýsluvenju og hefðhelgaðri stjórnskipan.

Ráðherra og alþingi telja sig vísast geta beytt lögum og þarmeð verði þetta allt saman löglegt á endanum. Um það er ég þó efins, enda er í öllum gildandi rétti vísað í evrópusáttmálann og hann gerir ráð fyrir því að íbúar viðkomandi sveitarélaga séu einir bærir um að taka ákvörðun um framtíðarskipan sína. Það hefur að sjálfsögðu ekki átt sér stað og erfitt að sjá fyrir sér hvernig að því verður staðið ef íbúar sveitarfélags fella sameiningaráform í héraði. Þetta er þó hápólitískt allt saman og ykkar, íbúar góðir, að ákveða á endanum hver afstaða Súðavíkurhrepps verður, þegar og ef til kemur. Allt að einu finns mér ég bregðast sem starfsmaður ykkar, sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Súðavíkurhrepps, ef ég ekki skoða stöðu sveitarfélagsins í tíma.

Það er stutt í 2022 í tillit þess að ákvarða framtíðarskipan sveitarfélagsins með samtvinnun við annað eða önnur sveitarfélög. Það er mikið ferli að sameina sveitarfélög svo vel fari, meta stöðuna og taka tillit til þess sem fyrir er og eftir á að standa. Það er engin pólitík í því og ætti að vera eitthvað sem allir íbúar Súðavíkurhrepps ættu að velta fyrir sér og framtíðarsýn á það hver verði staðarmörk sveitarfélagsins og hver fari með stjórn mála hér. 

Ég skrifa þessa kveðju til ykkar á nýju ári - árinu 2020. Ég er bjartsýnn en raunsær á framhaldið hér verði ráðuneytinu ágengt með áform sín í trássi við vilja íbúa. Þetta er ekki mitt að ákveða, en ég er. líkt og ég tek sjálfur til orða, með marga yfirmenn. Þar vísa ég til sveitarstjórnar og ykkar íbúa, útsvarsgreiðenda og allra sem hafa hér hagsmuna að gæta sem eigendur fasteigna, notendur þjónustu, atvinnurekenenda og allra þeirra sem hér eiga rætur.

Fjórðungssamband Vestfjarða tók þetta upp á haustþingi á Hólmavík 25. og 26. október 2019 og var talsvert um málið rætt. Það er raunar skoðun mín að það sé ekki hlutverk slíks sambands að álykta nema öðrum þræði um tilvist og afstöðu til sameiningar sveitarfélaga. Allt að einu var það óhjákvæmilegt þegar málefnið hafði verið tekið fyrir á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það byggir á skoðun minni á félagarétti - enda eru þessi félög bæði rekin á grundvelli sveitarfélaganna sjálfra og eru þar af leiðandi aðeins til fyrir sveitarfélögin sjálf. En þetta er að sjálfsögðu umdeilanlegt eins og allt - lögin sjálf eru afar sjaldan svarthvít - til eru tvær, þrjár eða fjórar tækar lögfræðilegar leiðir um flest. 

Þrátt fyrir að vera löglærður tel ég mig ekki vita til hlítar hvernig þetta allt getur átt sér stað samkvæmt gildandi rétti eða hvort þeir meinbugir sem ég sé á þessu hafu raunverulega þýðingu. Ýmislegt er hægt í krafti valds og ljóst að 200 manna samfélag má sín lítils gegn löggjafarvaldinu þegar það er knúið áfram af helstu stofnunum framkvæmdavaldsins með fulltingi félaga og stofnana. Samt er ég á því að rétt sé jafnan rétt og rangt sé jafn rangt þó margir kunni að vera á rangri skoðun. 

Ég kalla eftir því að við látum þetta til okkar taka á árinu 2020 á þann hátt sem þið íbúar raunverulega viljið. Þegar þingsályktunartillagan hefur formlega verið afgreidd á alþingi - af eða á - með breytingum eða óbreytt, verður tímabært að fara að meta þá kosti sem staðan býður upp á. Viðrið þetta við kjörna fulltrúa, ræðið á heimilum og vinnustöðum og umfram allt beint og óbeint við mig eftir því sem ykkur þykir viðeigandi. Ég er oftast til viðtals við ykkur öll þegar þið óskið eftir því. 

Ár 2020 verður ár framkvæmda hér í Súðavíkurhreppi, bæði í viðhaldi eigna og byggingu húsnæðis. Tíminn leiðir það svo í ljós hvort hér rísi iðja inn á Álftafirði og þá hvaða áhrif það hefur á samfélagið. Uppbygging atvinnu þarf að vera stöðug og á fleiri en einu sviði og íbúum hreppsins öllum til góðs. 

Megi árið 2020 færa ykkur öllum gæfu, vera áhugavert og gott í minningunni. 

Bestu kveðjur,

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri

 

 

Vefumsjˇn