Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2020 »
« J˙lÝ »
S M Ů M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni
laugardagurinn 4. aprÝlá2020

4.4.2020

Sæl verið þið öll íbúar Súðavíkurhrepps.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvað gengur yfir okkur þessa dagana. Samkomubann og ýmsar varúðarráðstafanir eru í gangi vegna COVID-19. Það er raunar erfitt að stinga niður staf án þess að nefna þennan fjára með einum eða öðrum hætti, enda snertir þetta okkur öll. 

Tölfræðin er með okkur í augnablikinu hér í Súðavíkurhreppi, en það er ekki þar með sagt að við eigum ekki við þetta hér með einum eða öðrum hætti. Þegar þetta er ritað veit ég ekki til þess að smit hafi komið upp í hreppnum, en það er líkt hér og með nágranna okkar, alveg meðan ekkert er að frétta er það þannig. 

Við eru öll með nágrönnum okkar í liði - Bolungarvík og Ísafjarðarbæ, enda er staðan að þyngjast þar í viðureign við það að halda utan um hlutina. Fyrir mína parta, mér finnst til fyrirmyndar hvernig bæjarstjórinn í Bolungarvík tekst á við verkefnið í bænum, enda dró þar fyrst til tíðinda með uppgötvun þessa vágests. 

Ég er þannig gerður að ég þykist vera ónæmur fyrir öllu þar til ég er það ekki, held að ég sé bara eins og við flest að ég held alltaf að hlutirnir eigi við aðra en sjálfan mig alveg þangað til ég stend í hringiðunni miðri. Við getum ekki leyft okkur þann munað nú í dag, það er bara eitthvað annað á ferðinni en við erum gerð til þess að takast á við. Við verðum að virka sem lið, öll sem eitt, standa saman, virða reglur og það sem boðað er í smitvörnum og allri hegðan okkar þar til annað verður gefið út. 

Ég veit að ég hef ekki þá lífsreynslu að geta gefið öðrum óyggjandi fyrirmæli um hvernig á að takast á við það sem við skulum kalla afleiðingar þessarar reynslu sem við ætlum að eiga að baki sem fyrst. Í það minnsta má orða það sem svo að það er ekkert verið að grínast með hlutina eins og þeir eru í dag. Þó er ég talsmaður þess að horfa með gríngleraugum flest, en það verður allt að eiga sinn tíma. 

Þessi vetur ætlar seint að sleppa klónum hér fyrir vestan líkt og víðast um land. Ég sá það ekki fyrir þegar ég fluttist í Súðavíkina sl. vor að hér yrði snjómokstur nær allar vikur frá og með miðjum desember innan þorps. Þá auðvitað sá ég ekki fyrir að við ættum eftir að takast á við það að það væri meira og minna appelsínugulur blær á veðurspám fyrir Vestfirðina, en auðvitað hafa fleiri landshlutar fengið sinn skerf. En ég er ekki með neinn efa í mér að hér er þetta allt þess virði að búa við.

Náttúruna hemjum við ekki eða henna dynti, enda ekki okkar hlutverk. Við getum bara stýrt því hvernig við horfum á hlutina og erum sjálf okkar gæfusmiðir frá degi til dags. Auðvitað berst ég fyrir því með ykkur öllum að við fáum eitthvað af þeim tækjum til þess að létta okkur þessa baráttu svo sem með bættum samgöngum og tækjum til þess að byggja upp stöðugt atvinnulíf.

Mín skilaboð til allra í dag eru þau að, meðan við vitum ekki til þess að hér sé komið smit í hreppinn, þá erum við með fólkinu öllu í fjórðungnum í liði eins og landinu öllu. Við fylgjumst með frá degi til dags hvað er boðað í því að verjast fyrir okkur sjálf, fyrir aðra og pössum upp á heilsuna okkar. Heilsuna sem við ætlum að nýta til hins ýtrasta með öllum sem okkur standa næst þegar kemur sá tími að við fáum að njóta aftur samveru án þess að hafa að lágmarki tvo metra í næsta mann. Auðvitað er okkur flestum tamt að eiga þar meiri nánd en svo, enda lífið næsta litlaust án þess til lengdar. 

Á undarlegum tímum gerast auðvitað líka jákvæðir hlutir. Hér munum við snúa plönum okkar á þá lund að meiri sveigjanleiki verði í öllum okkar háttum, held að það verði lærdómurinn sem fæst úr þessu öllu. Við munum þakka fyrir heilsu okkar og fókið í kringum okkur, áður sjálfgefnir hlutir fara vonandi að verða okkur dýrmætari frá degi til dags. Og auðvitað mun athygli okkar allra vera á því að vona það besta og gera ráð fyrir hinu versta, en umfram allt passa upp á umgengni við allt og alla með reynslu okkar í huga.

Ég er maður einföldunar ef það er hægt - Thorbjörn Egner var fyrirferðamikill þegar ég var að vaxa úr grasi. Finnst raunar margt af þeim sannleika og gullkornum hafa sannað sig í gegnum tíðina. Ekki bara að öll dýrin í skóginum séu vinir, heldur að - fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Gangi ykkur öllum vel og ég vona að þið eigið sem besta daga, nú sem endranær. 

Með kærri kveðju, 

Bragi Þór Thoroddsen - sveitarstjóri Súðavíkurhrepps 

 

Vefumsjˇn