Sitemap
TextSizeButtonSmall TextSizeButtonMed TextSizeButtonBig
Valmynd2
lifid
« 2020 »
« Ágúst »
S M Ţ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          
lifid
Facebook Skolastarfsemi Skolar dagskra
Utgefid efni

Um verslunarmannahelgina 31. júlí – 3. ágúst verður skemmtileg gönguhátíð í Súðavík. Fjölbreyttar göngur fyrir fólk á öllum aldri og fjörugar uppákomur á kvöldin (í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis og almannavarna). Athugið sérstaklega leiðbeiningar varðandi Covid neðan við dagskrána.

Gönguhátíðin er haldin í samvinnu Göngufélags Súðavíkur, Súðavíkurhrepps og gönguklúbbsins Vesens og vergangs.

Dagskrá

 

Fimmtudagur 30. júlí

Off venue

Kl. 20:00               Barsvar í Melrakkasetrinu (Pub Quiz)

Barsvar í léttum dúr þar sem spurningar fjalla að sjálfsögðu um Súðavíkurhrepp og Vestfirði alla.  Alvöru vestfirsk verðlaun í boði og tilboð á öli.

 

Föstudagur 31. júlí

 

Kl. 9:30                 Hestur í Hestfirði (fjórir skór)

Hestfjall sker sig úr fjöllum við Ísafjarðardjúp þar sem það stendur stakt og hömrum girt á milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar. Gengið verður á þetta bratta og formfagra fjall í fylgd Barða, sem ólst upp á samnefndum bæ undir fjallinu. Fararstjórar Anna Lind og Barði. Farið verður af stað kl. 9:30 frá Kaupfélaginu í Súðavík og keyrt inn að eyðibýlinu Hesti. Gangan sjálf hefst kl. 10. Gangan er ekki fyrir lofthrædda. Vegalengd 6-7 km, uppsöfnuð hækkun 550 m, göngutími 5-6 tímar.    

 

Kl. 19:15               Gönguhátíðin sett og fiskisúpuveisla

Gestir kaupa bolla á kr. 500 og einnig verður hægt að kaupa drykki og sitthvað fleira í kaupfélaginu.

 

Kl. 21                     Brenna

Kl. 20:50 verður stutt skrúðganga úr matarveislunni yfir að brennunni þar sem kveikt verður í bálkestinum kl. 21. Við brennuna verður hópsöngur.

 

 

Laugardagur 1. ágúst

 

Kl. 8-10                 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti á Kaupfélaginu/Jóni Indíafara

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Skammturinn er á kr. 700 en frítt er fyrir þá sem eru með gönguarmband. Vegna Covid verður hafragrautur afgreiddur í einnota bollum.

 

Kl. 9                       Súðavíkurfjall og tónleikar með Mugison (þrír skór)

Gengið er frá Arnardal og nokkurn bratta upp á Súðavíkurfjall og komið niður Traðagilshvílft að Súðavík. Fólk kemur saman við Kaupfélagið í Súðavík og lagt er af stað kl. 9 á eigin bílum og þeim lagt við ferðaþjónustuna hjá Heimabæ í Arnardal.  Þeir sem koma frá byggðum Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur geta beint í Arnardal og greitt fararstjóra í reiðufé.  

Ofan af Súðavíkurfjalli er mikið og gott útsýni yfir Djúpið. Þegar komið er niður í Traðargilshvilftina hefjast þar tónleikar með Mugison. Því er gott að hafa aukajakka í bakpokanum og sessu til að sitja á. Sjálfsagt er að taka með sér heitt að drekka og gott nesti og njóta á meðan tónleikum stendur.

Fararstjórar eru Anna Lind og Barði.  Vegalengd ca 10 km og uppsöfnuð hækkun ca 700 m. Göngutími með tónleikum er ca 6-7 tímar. Eftir göngu þarf að skipuleggja akstur með bílstjórana til að sækja bílana í Arnardal.

 

Kl. 9                       Bardagi (þrír skór)

Bardagi er fallegur tindur á milli Álftafjarðar og Seyðisfjarðar og fær nafn sitt af bardaga tveggja dverga sem vörpuðu björgum. Brattar hlíðar, en svo eru verðlaunin frábært útsýni yfir fjöllin og Djúpið. Komið er saman við Kaupfélagið í Súðavík og lagt af stað kl. 9. Fararstjóri Orri Sverrisson. Vegalengd ca 3-4 km og hækkun ca 600 m. Göngutími 3-4 tímar. 

 

Kl. 12                     Gengið á tónleika með Mugison

Komið er saman við Kaupfélagið kl. 12 og keyrt upp í grjótnámu og bílum lagt. Þaðan er gengið upp í Traðargilshvilftina og Mugison verður með tónleika og án efa mun Mugilady leggja sín lóð á vogarskálarnar. Tónleikastaðurinn er í ríflega 500 m hæð og það verður án efa ógleymanlegt að hlýða á frábæra tónlist og horfa yfir Djúpið og Álftafjörðinn. Vegalengd 3 km, uppsöfnuð hækkun ca 450 m.

 

Kl. 17                     Síðdegisganga um þorpið (einn skór)

Fjallað um þætti úr sögu Súðavíkur m.a. fyrstu hvalveiðistöðina á Íslandi á Langeyri, svæðið þar sem snjóflóðið féll 16. janúar 1995, Raggagarð og fleira. Hist við Kaupfélagið í Súðavík kl.17:00. Vegalengd ca 5 km. Göngutími 1-2 tímar. Leiðsögn: Egill Heiðar Gíslason.

 

Kl. 19:00              Sameiginlegt grill í Raggagarði

Grillin verða orðin heit kl. 19:00 og hægt að koma með eigið kjöt á grillið eða kaupa grillaðar pylsur á vægu verði. Pappadiskar og hnífapör verða á staðnum. Spiluð verður létt tónlist.

 

Kl. 21                     Útidansleikur við Samkomuhúsið eða í Raggagarði

Fjörugt ball í framhaldi af grillinu þar sem dansað verður inn í kvöldið á bílastæði Samkomuhússins. Gestir koma með drykkina með sér.

 

Sunnudagur 2. ágúst

 

Kl. 8-10                 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti á Kaupfélaginu/Jóni Indíafara

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Skammturinn er á kr. 700 en frítt er fyrir þá sem eru með gönguarmband. Vegna Covid verður hafragrautur afgreiddur í einnota bollum.

 

Kl. 9                       Galtarviti um Bakkaskarð  (þrír skór)

Komið saman við Kaupfélagið í Súðavík, sameinast í bíla og keyrt í Skálavík. Komið er við á Bónusplaninu á Ísafirði kl. 9:30. Lagt er af stað úr Skálavík um tíuleytið og gengið um Bakkaskarð að Galtarvita. Vitinn stendur á fögrum stað í Keflavík á milli fjallanna Öskubaks og Galtar. Vegalengd 12 km og 880 m uppsöfnuð hækkun. Göngutími ca 6-8 tímar. Leiðsögn Barði og Anna Lind

 

Kl. 11                     Valagil  (einn skór)

Keyrt frá Kaupfélagsplaninu inn í botn Álftafjarðar og lagt á bílastæði á Seljalandi en þar búið fram til 1972-4. Tvíþætt ganga – annars vegar styttri ganga að Valagili og hins vegar áfram og upp með gljúfrunum. Það hefur lengi verið vinsælt að ganga í hið fallega Valagil og sem flestir hvattir til að koma með og hlusta á söguna af Bóthildi. Leiðsögn Einar Skúlason. Styttri gangan er ca 4 km og lengri gangan um 10 km.

 

Kl. 12                     Ögurganga (tveir skór)

Gengið frá Ögri og upp á útsýnisstað þar sem má sjá glæsilegt útsýni yfir Skötufjörð, Vigur, Ísafjarðardjúp og Æðey. Þarna eru einnig mestu hvalaslóðir Djúpsins og algengt að sjá hnúfubaka í ætisleit. Verð fyrir manninn er kr. 1500 og er innifalið að fá kaffi/te/kakó og kökusneið í lok göngu á kaffihúsinu í Ögri. Hist er við samkomuhúsið í Ögri, hægt að leggja bílum þar og lagt af stað kl. 12. Gangan tekur um tvo tíma með stoppum.  Leiðsögn: Guðfinna Hreiðarsdóttir. Vegalengd: ca 6 km og hækkun 250 m. Athugið að það tekur rúman klukkutíma að keyra frá Súðavík að Ögri.

 

Kl. 16                     Naustahvilft (2 skór)

Gangan upp í Naustahvilft er við flestra hæfi og útsýnið yfir Skutulsfjörðinn og Ísafjarðarbæ svíkur engan. Sagðar verða nokkrar sögur og þátttakendur kvitta í gestabókina í hvilftinni.  Vegalengd er ca 2 km og hækkun 220 m. Göngutími er ca 2 tímar með stoppum. Leiðsögn: Ísfirðingur.

 

Kl. 20                     Sögustund á sunnudagskvöldi í anda baðstofuloftsins                                                               

Tilkynnt verður nánar á sjálfri gönguhátíðinni um staðsetningu sögustundarinnar. Sagðar verða fjölbreyttar sögur af fólki í Djúpinu. 

 

Mánudagur 3. ágúst

 

Kl. 8-10                 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti á Kaupfélaginu/Jóni Indíafara

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Skammturinn er á kr. 700 en frítt er fyrir þá sem eru með gönguarmband. Vegna Covid verður hafragrautur afgreiddur í einnota bollum.

 

Kl. 9                       Morgunganga á Kofra (þrír skór)

Komið saman við Kaupfélagið og í sameinast í bíla. Keyrt af stað kl. 9. Gengið verður á Kofra í leiðsögn Önnu Lindar og Barða, en líklega hefur enginn (lífs eða liðinn) gengið oftar á Kofrann en Barði. Gangan getur verið áskorun fyrir lofthrædda. Sögustund verður á toppnum um kraftinn í Kofra. Hámark 30 manns. Vegalengd: 3 km. Hækkun 600 m, Göngutími: 5 tímar.  Leiðsögn: Anna Lind Ragnarsdóttir og Barði Ingibjartsson.

 

COVID

Við biðjum þá sem eru með kvefeinkenni að halda sig heima og minnum fólk á að forðast faðmlög og handabönd, halda 2 m fjarlægð við óskylda og stunda handþvott og spritta hendur. Athugið að ekki mega fleiri en 100 manns koma saman eða nota sömu aðstöðuna og því takmarkast aðgangur að tjaldsvæðinu við það, fjöldi í einstakar göngur og því eru viðburðir utandyra eins og hægt er.

 

Um göngurnar

Almennt séð eru fjöll og heiðar á þessum slóðum grýtt. Þannig er um flestar göngurnar nema láglendisgöngur. Gott er að vera með göngustaf eða stafi og gæta þess þá að hafa lykkjuna ekki utan um úlnliði. Þá er gott að vera í gönguskóm með góðu gripi á sóla. Mikilvægt er að velja göngur við hæfi og nota vegalengd og hækkun á leið sem mælikvarða.

Almennir fyrirvarar gilda um göngur út frá veðri og aðstæðum. Ef fella þarf niður göngu eða göngur vegna slíks þá er stefnt á að vera með aðrar göngur í staðinn.

Þátttakendur mæta í göngur á eigin ábyrgð og er bent á að hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

 

Verðskrá:

Forsöluverð á gönguarmbandi til 30. júlí kr. 7.000, smellið hér til að kaupa armband (verður afhent í Súðavík): https://paymentweb.valitor.is/Tengill/in3ahq

Eftir 30. júlí mun armbandið kosta kr. 8.000.

 

Innifalið í gönguarmbandi eru allar göngurnar, tjaldsvæði í Súðavík alla helgina fyrir handhafa og hafragrautur á morgnana með lýsi og lifrarpylsu og kaffi.

Athugið að ganga í Ögri er ekki innifalin í armbandi.

 

Verð í styttri göngur er kr. 1500.

Verð í lengri göngur er kr. 3000.

Verð á gönguarmbandi er kr. 8.000

Verð á gönguarmbandi fyrir 16-18 ára og elli- og örorkulífeyrisþega kr. 4000

Verð á gönguarmbandi fyrir 6-15 ára kr. 1500

Gönguarmband kostar ekkert fyrir leikskólaaldur.

 

Miðstöð gönguhátíðarinnar er í Jóni Indíafara í Grundarstræti og þar verður hægt að fá upplýsingar um hvaðeina sem tengist gönguhátíðinni, kaupa armband (og fá afhent fyrirframgreitt armband) eða aðgang að einstökum göngum, fá upplýsingar um dagskrá, ráðgjöf um búnað, borða hafragraut á morgnana og drekka kaffi og te allan daginn og fara í fiskisúpuveislu á föstudagskvöldinu.

Aðrar gönguleiðir

Hægt er að prófa ýmsar aðrar gönguleiðir á svæðinu með Wapp-Walking app. Gönguleiðir eru í Heydal, Vatnsfirði, á Hvítanesi við Skötufjörð, í Hestfirði, í Álftafirði og þrjár leiðir eru í Skutulsfirði og nokkrar leiðir við Korpudal í Önundarfirði og í Bolungarvík og í Dýrafirði.

 

Aðstandendur hátíðarinnar:

Í forsvari fyrir gönguhátíðina er Einar Skúlason – GSM 663 2113.

Gönguklúbburinn Vesen og vergangur er á Facebook og með rúmlega 12.000 meðlimi. Farið er í ca 3-5 gönguferðir á viku. Forsvarsmaður er Einar Skúlason: https://www.facebook.com/groups/vesenogvergangur/

Göngufélag Súðavíkur stendur fyrir reglubundnum gönguferðum í Álftafirði og víðar. Formaður er Barði Ingibjartsson.

Súðavíkurhreppur er sveitarfélag við Ísafjarðardjúp og nær frá Ísafjarðarbotni að Súðavíkurhlíð við Álftafjörð.

Einnig er samstarf við Ferðafélag Ísfirðinga sem stendur fyrir fjölbreyttri göngudagskrá allt árið.

Réttur er áskilinn til að breyta um áætlun vegna veðurs. Ef aðstæður eru varasamar á fjöllum, verður boðið upp á láglendisgöngur í staðinn. Fólk tekur þátt í gönguferðum á eigin ábyrgð og er þátttakendum bent á að hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

 

fimmtudagurinn 25. júní 2020

Fiskeldi hafiđ ađ nýju í Álftafirđi

Í gærkvöldi, þann 24. júní 2020, kom Papey með fyrsta farminn af regnbogaseiðum frá Nauteyri til þess að flytja út í fiskeldiskvíar á Álftafirði. Papeyin kom um kl. 23 og fór að dæla fyrsta skammtinum í kví. Áætlað er að setja um 160000 seiði, sem eru um 200 gr. í kvíarnar og ala fram á haustið 2021 í sláturstærð (slögtun). Vonir standa til þess að regnbogasilungur nái um 3500 gr. þyngd haustið 2021 og helst meira ef vel gengur.

Háafell hefur fengið útgefið starfs- og rekstrarleyfi fyrir tæpum 7000 tonnum af regnbogasilung til þauledis í fiskeldiskvíum.

Súðavíkurhreppur fagnar því að leyfi hafi fengist fyrir eldinu og gleðilegt að sjá eldið hefjast í kvíum inn á Álftafirði og óskar Háafelli velfarnaðar.

Dísan lagði í ferð inn í Djúp í morgun til þess að hefja tilraunauppdælingu á kalkþörungi fyrir Íslenska kalkþörungafélagið. Ferðin markar þannig ákveðinn áfanga í því verkefni að hefja uppdælingu og vinnslu hér í Djúpi og inn á Álftafirði. Stefnt er að því að framkvæmdir við landfyllingu verði án tafa þegar fyrir liggur vinnsluleyfi og samningur um uppbyggingi verksmiðju í Álftafirði.

Sveitarstjóri hitti Halldór Halldórsson forstjóra Íslenska kalkþörungafélagsins á höfninni áður en Dísa lagði í fyrsta tilraunatúrinn inn í Djúp. Það verður áhugavert að fá fréttir af því hvernig til tekst og um framvindu verksins í heild.

Frá Vestfjarðastofu.

Vestfjarðastofa stendur fyrir örkönnun varðandi atvinnuþátttöku ungs fólks og námsmanna á Vestfjörðum. Könnunin er stutt og tekur aðeins nokkrar mínútur að svara henni. Leitast er við að skoða áhuga ungs fólks á atvinnuþátttöku á Vestfjörðum í sumar. Við hvetjum alla sem eru í námi og hafa hug á að leita sér að atvinnu á svæðinu að svara og auðvelda þannig sveitarfélögunum og fyrirtækjum á svæðinu með áherslur varðandi sérstakt sérstakt átak ríkisstjórnarinnar varðandi sumastörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri. Linkurinn er hér á könnun Vestfjarðastofu.

fimmtudagurinn 14. maí 2020

Nýbygging ađ Grundarstrćti

Framvindan er hröð í byggingu nýrra íbúða við Grundarstræti í Súðavík eftir að snjóa leysti. Einingarhúsin eru að taka á sig mynd og unnið hörðum höndum. Gaman að fylgjast með húsnæði rísa í Súðavík. Nokkrar myndir frá Þorsteini Hauk með.

föstudagurinn 8. maí 2020

Gerđ strandsvćđisskipulags á Vestfjörđum

 

Gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum

Lýsing

Svæðisráð auglýsir lýsingu fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum Þar er gerð grein fyrir hvernig fyrirhugað er að standa að vinnu við gerð strandsvæðisskipulagsins. Lýsingin er aðgengileg hjá Skipulagsstofnun og á hafskipulag.is frá 7. maí til 1. júní. Nálgast má prentað eintak hjá Skipulagsstofnun.

 

Lýsing fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum.

 

Allir eru hvattir til að kynna sér efni lýsingarinnar og koma á framfæri ábendingum um nálgun og efnistök í skipulagsvinnunni. Ábendingar þurfa að vera skriflegar og má koma á framfæri bréfleiðis til Skipulagsstofnunar, með tölvupósti á hafskipulag@skipulag.is eða á athugasemdagátt á hafskipulag.is. Frestur til að koma á framfæri ábendingum er til 1. júní 2020.

 

Lýsing er kynnt samkvæmt 11. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða.

 

Samráðsvefsjá

Opnuð hefur verið samráðsvefsjá um gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þar er hægt er að koma á framfæri upplýsingum um hvernig svæðin eru nýtt til afþreyingar, ferðaþjónustu og nytja ásamt áherslum varðandi styrkleika svæðanna, áskoranir og tækifæri. Allir eru hvattir til þess að taka þátt. Vefsjáin verður opin til 4. júní. Upplýsingar sem safnast í gegnum vefsjánna verða nýttar í vinnunni framundan við gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum.

 

Kynningarfundur

Fyrirhuguð vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum verður kynnt á veffundi sem streymt verður á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar þann 12. maí kl. 15:00.

 

Allir sem hafa áhuga eru hvattir til að taka þátt í fundunum. Nánari upplýsingar um fundina eru á hafskipulag.is.

 

Kynningarfundur

Til stóð að halda samráðsfundi samhliða kynningu á lýsingu en vegna samkomutakmarkana hefur þeim verið frestað. Samráðsfundirnir verða haldnir haustið 2020 og verða þeir auglýstir þegar nær dregur. Á fundunum verður þátttakendum boðið til samtals um stöðu svæðisins, styrkleika og áskoranir og leitað eftir ábendingum þátttakenda um núverandi og framtíðar nýtingu þess. Fundirnir verða öllum opnir.

 

Hafskipulag.is

Jafnframt er athygli vakin á að á nýju vefsvæði skipulags á haf- og strandsvæðum, hafskipulag.is má nálgast frekari upplýsingar um skipulag á haf- og strandsvæðum ásamt gerð strandsvæðisskipulags og framvindu vinnunnar á hvoru svæði.

fimmtudagurinn 23. apríl 2020

23. apríl 2020 - sumardagurinn fyrsti.

Gleðilegt sumar kæru íbúar Súðavíkurhrepps.

Fallegur vordagur í Súðavík og vísast víðar um hreppinn. Sumarið er vonandi í nánd, alla vega er allt að kvikna í náttúrunni. Farfuglar eru flestir mættir, en krían auðvitað ekki alveg strax. Snjóa leysir og dagurinn lengri og allt verður einhvern veginn léttara. Vonandi verður lífið líka í eðlilegri horfum eftir því sem sumarið sækir á, en auðvitað verður ekki allt eins og það var.

Það liggur fyrir að slakað verður á þeim takmörkunum í Súðavíkurhreppi sem verið hafa umfram landið í heild. Þannig verður samkoma miðuð við tuttugu einstaklinga (hóp) en ekki fimm eins og verið hefur undanfarið. Það leiðir til þess að unnt verður frá og með 27. apríl 2020 að opna skóla og leikskóla í Súðavík, eldriborgarastarfið í Grundarstræti en auk þess ætti að vera auðveldara að reka fiskvinnsluna við Njarðarbraut.

Samt verður áfram þannig að fólki er ráðlagt að hafa minnst tveggja metra bil sín á milli, hvort heldur er í vinnu eða öðrum samkomum. Mikilvægt er að halda í heiðri allar þær varúðarráðstafanir sem okkur hefur verið uppálagt af Landlækni og Almannavörnum. Við þvoum okkur um hendur eins og enginn sé morgundagurinn, sprittum okkur og gætum varúðar í samskiptum við aðra. Öll þurfum við á því að halda að ekki verði bakslag í þessum tilslökunum og mikið um vert að allir leggi þar lið. En um leið skulum við samt njóta þess að geta farið út, hreyft okkur og aðeins gleymt því um sinn að hér þurfi allt þetta til þess að geta haldið samfélaginu gangandi. 

Ég óska ykkur gleðilegs sumars og vona að það verði líkt og vonir standa til eftir vetur sem hefur fært okkur einhver ár aftur í tímann hvað varðar samgöngur og einangrun. Það er þó allt vonandi að baki og vorið komið til að vera fram að sumri. 

Með kærri kveðju,

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps 

 

 

fimmtudagurinn 16. apríl 2020

KĆRU SÚĐVÍKINGAR

Enn er í gildi samkomubann í Súðavíkuhreppi líkt og norðanverðum Vestfjörðum öllum, þar sem fjöldatakmark er við fimm manns.  Þetta á við um börn og unglinga líka.  Engum er þetta létt þó auðvitað sé okkur mis-auðvelt að láta hefta okkur þannig.  En þessi höft hafa tilgang og ofar öllu er þar velferð okkar allra og heilsa.  Þetta er okkur öllum fyrir bestu -  þrátt fyrir að það sé ekki alltaf sýnilegt þegar á hólminn er komið.  Og kannski ekki auðveldast að stritast við að sitja þegar vorið bankar upp á, veðrið verður betra til útivistar og sólin skín.

Þrátt fyrir að yfirvöldin – Þríeykið – Alma, Þórólfur og Víðir, hafi gefið út að líklegast verði slakað á einhverju frá og með 4. maí 2020 er talsvert langt í það tímamark.  Þróun mála hér á Vestfjörðum er með öðru móti en hefur verið á landsvísu, en tölfræðin er okkur þungt hvað varðar smit og afleiðingar.  Við þurfum því öll að standa saman í því að halda í heiðri allt það sem okkur er uppálagt af yfirvöldum hér.  

Á Vestfjörðum höfum við okkar eigið fólk sem gegnir hlutverki Almannavarna og sóttvarna. Okkar eigið þríeyki og meira en það. Karl Ingi lögreglustjóri fer þar fyrir ásamt Hlyn Hafberg, Andri og Súsanna læknar eru fyrir heilbrigðisstéttina, Gylfi og Svavar Þór fyrir HVEST og Sigurður Arnar fyrir slökkviliðið og sjúkraflutninga, Halldór Óli fyrir björgunarsveitirnar og Bryndís fyrir Rauða Krossinn. 

Í eldlínunni er bæjarstjórinn í Bolungarvík - Jón Páll, sem hefur þurft að standa í víðtækum aðgerðum með sínu fólki til þess að reyna að hefta útbreiðslu sýkinga og tryggja velferð íbúa í Bolungarvík. Þá er nýkominn bæjarstjóri - Birgir, með erfitt hlutverk í byrjun síns tímabils í nýju sveitarfélagi.  Í Súðavíkurhreppi er sveitarstjóri meira á hliðarlínunni, enn sem komið er, varðandi afleiðingar Covid-19. Allt að einu eru afleiðingar samkomubanns og annarra hafta að hafa afleiðingar hér í Súðavíkurhrepppi líkt og annars staðar á landinu.

Fjölmargir aðrir standa að þessu - hafa hlutverk í Almannavörnum - og þrátt fyrir að við séum öll almannavarnir verður ekki sagt annað en að þetta ástand mæði mismikið á okkur. Stöndum því saman sem almannavarnir - öll sem eitt, við í Súðavíkurhreppi með Vestfjörðum og landinu öllu - þannig að þessir erfiðu tímar verði ekki erfiðari en þörf er á vegna þess að við slökum of mikið á og of snemma. 

Almannavarnir eru keðja, en hún verður aldrei sterkari en veikasti hlekkur hennar.

Með vinsemd og virðingu,

Bragi Þór Thoroddsen,

sveitarstjóri Súðavíkurhrepps - fulltrúi almannavarna í Súðavíkurhreppi

sunnudagurinn 12. apríl 2020

Páskakveđja 2020

Kæru íbúar Súðavíkurhrepps.

Páskadagur runninn upp með bjartviðri. Það er því kannski vísbending um að veturinn sé á undanhaldi og að vorið sé að fara að láta til sín taka. Það er að sjálfsögðu ein sterkasta myndlíkingin enda boða páskar líf og upprisu. Vonum öll að þessi langi og erfiði vetur sé að baki. Það veitir ekki af að umhverfið og veðrið sé með okkur, enda nóg á ferðinni til þess að setja daglegt líf úr skorðum. 

Ég óska ykkur öllum þess að lífið fari ykkur mildum höndum um páskana, að páskarnir verði um leið þannig að þeir boði líf og upprisu, að áhyggjur okkar verði á undanhaldi og lífið komist í fastar skorður. 

Umfram allt óska ég ykkur gleðilegra páska. 

Bragi Þór 

miđvikudagurinn 8. apríl 2020

Skrifstofa Súđavíkurhrepps

Sólsetur í Álftarfirđi - mynd Ţorsteinn Haukur
Sólsetur í Álftarfirđi - mynd Ţorsteinn Haukur

Skrifstofa Súðavíkurhrepps tilkynnir breytingu á opnunartíma.

Frá og með deginum í dag, 8. apríl 2020, verður skrifstofan almennt ekki opin. Erindi skulu borin upp símleiðis í 450-5900 eða á sudavik@sudavik.is.

Ef erindi er þess eðlis að verði ekki leyst eftir öðrum leiðum má panta viðtal. Slík þjónusta er þó undantekning og verður metið hverju sinni. Unnt er að senda póst á sveitarstjóra á bragi@sudavik.is og hafa samband í síma 868-9272 og 843-4868 ef erindi varðar beint sveitarstjóra. 

Við munum áfram halda opnu fyrir okkar daglega starfsemi en einungis verður opið fyrir afgreiðslu Póstsins á auglýstum tímum.

Með kærri kveðju,

Bragi Þór f.h. skrifstofu Súðavíkurhrepps.

Eldri fćrslur
Vefumsjón